Niðurstöður bandarískrar rannsóknar á heilnæmi fitusnauðs mataræðis benda til þess að það dragi ekki úr hættu á krabbameini og hjartasjúkdómum. Rannsóknin er sú stærsta sem gerð hefur verið í Bandaríkjunum og var kostuð af ríkinu.
49.000 konur á aldrinum 50 til 79 ára tóku þátt í henni og voru þær undir eftirliti í átta ár. Þær sem voru á fitusnauðu mataræði fengu engu síður brjósta- eða ristilkrabba, hjartaáföll og heilablóðföll en þær sem átu það sem þeim sýndist.
Jules Hirsch, heiðursprófessor við Rockefeller háskólann í New York, segir niðurstöðurnar byltingarkenndar, en hann hefur rannsakað áhrif mataræðis á þyngd og heilsu manna alla sína starfsævi. „Niðurstöðurnar ættu að binda endi á þennan hugsunarhátt sem nú tíðkast, að við vitum allt sem vita þarf til þess að breyta mataræði þjóðarinnar og efla hreysti hennar,“ segir Hirsch.
Fjallað er um rannsóknina í nýjasta tölublaði bandarísku læknasamtakanna, (e. The Journal of the American Medical Association) og segir Michael Thun, sem hefur yfirumsjón með farsóttarfræðirannsóknum við bandaríska krabbameinsfélagið, að rannsóknin sé óvenjuumfangsmikil og mikið í hana lagt. Því hljóti niðurstöður hennar að vera marktækar.
Einn helsti gagnrýnandi rannsóknarinnar, Dean Ornish, segir, að fitusnauða mataræðið sem miðað var við hafi ekki verið nógu fitusnautt og að konurnar hafi ekki borðað nógu mikið af ávöxtum og grænmeti. Átta ár væru ekki nóg til þess að slá því fram að fitusnautt mataræði hefði engin áhrif á tíðni fyrrgreindra sjúkdóma. Dagblaðið New York Times segir frá þessu á vef sínum.