Þótt maður sé tággrannur er ekki þar með sagt að maður geti sleppt því að stunda líkamsrækt. Samkvæmt nýrri rannsókn er grönnum „sófakartöflum“ líka hætt við hjartasjúkdómum af völdum hreyfingarleysis. Magn LDL-kólesteróls, sem getur stíflað æðar, í blóði þeirra reyndist við mælingu vera svipað og í þeim feitu.
LDL-magnið hjá þeim grönnu sem stunduðu líkamsrækt var aftur á móti innan hæfilegra marka. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru í samræmi við þau vel þekktu sannindi að þeir sem stunda líkamsrækt eru hraustari og grennri en þeir sem ekki hreyfa sig, og eiga síður á hættu að fá hjartasjúkdóma.
Frá þessu greinir fréttavefur BBC, en niðurstöður rannsóknarinnar birtast í International Journal of Obesity.