45 verkfræðinemar frá Norðurlöndum í heimsókn

Víðfari – BEST á Íslandi, nýstofnað félag verk- og raunvísindanema við Háskóla Íslands, heldur nú um helgina norrænan svæðisfund evrópsku samtakanna BEST og eru 45 verkfræðinemar frá Norðurlöndum þátttakendur. BEST sem stendur fyrir Board of European Students of Technology, var stofnað árið 1989. Samtökin samanstanda af 69 háskólum í 29 löndum Evrópu og eru þau ört vaxandi. Meginmarkmið samtakanna er að stuðla að auknum samskiptum tæknistúdenta í Evrópu. Hverjum hópi innan samtakanna er skylt að bjóða upp á námskeið á minnst tveggja ára fresti sem bjóða upp á aukreitis menntun fyrir stúdenta. Víðfari mun bjóða upp á slíkt námskeið í sumar sem ber titilinn “ Orkusamfélagið Ísland – Vetni og Jarðvarmi“, að því er segir í fréttatilkynningu.

Megintilgangur vinnuhelgarinnar sem haldin er á Úlfljótsvatni er að gefa félögum Norræna svæðisins færi á að stilla saman strengi sína fyrir væntanlegan aðalfund BEST. Fjallað verður um breytingar í stefnu og innra starfi ásamt því sem meðlimir fá tækifæri til að auka á færni sína í félagsstörfum. Ráðgjafi svæðisnefndarinnar Sarah Maria Frankær og ritari aðalstjórnarinnar Susan Langer eru meðal gesta um helgina. Með í för er einn helsti leiðtogaþjálfari samtakanna Vilius Benetis og koma þau öll frá DTU í Kaupmannahöfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert