Segir Jesús hugsanlega hafa gengið á ís á Galíleuvatni

Bandarískur haffræðiprófessor við háskólann í Flórída hefur komið fram með tilgátu um að Jesús kunni að hafa gengið á ísjaka á Galíleuvatni og það sé skýringin á frásögn Nýja testamentisins um að Jesús hafi gengið á vatninu.

Prófessorinn, sem nefnist Doron Nof, hefur áður komið fram með vísindalegar skýringar á því, að Rauðahafið hafi klofnað þannig að Móses og Ísraelsmenn gátu gengið á hafsbotninum á flótta undan Egyptum eins og Gamla testamentið segir frá.

Reutersfréttastofan hefur eftir Nof, að rannsóknir hans hafi leitt í ljós að fyrir 1500-2600 árum hafi komið tímabil þar sem loftslag við Galíleuvatn, sem nú nefnist Kinneretvatn, hafi verið mun kaldara en nú. Þess vegna sé vel líklegt að mannheldur ís hafi myndast á vatninu.

Grein um þessar rannsóknir Nofs birtist í vísindatímaritinu Journal of Paleolimnology og segir Nof að þetta sé hugsanleg skýring á því hvernig Jesús gekk á vatni.

„Ef ég væri spurður hvort ég tryði því að einhver hafi gengið á vatni, þá er svarið nei," sagði Nof. „Ef til vill gekk einhver á ís; ég veit það ekki. Ég trúi því hins vegar að á þessu hafi verið einhver eðlileg skýring."

Nof segir, að þegar hann setti fram kenningu um það fyrir 14 árum, að samspil hafstrauma og vindátta gæti skýrt hvers vegna Rauðahafið hefði klofnað, hafi hann fengið hótunarbréf, jafnvel þótt kenningin styddi lýsingu Biblíunnar á atburðunum. Hann segist einnig hafa fengið hatursbréf nú eftir að kenning hans um Galíleuvatn fór að kvisast út.

„Þeir spurðu mig hvort ég ætlaði næst að reyna að útskýra upprisuna," segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert