Niðurstöður rannsóknar sem var gerð við Satou sjúkrahúsið í Japan bendir til þess að kelerí geti dregið úr ofnæmisviðbrögðum. Til þess þarf sá sem þjáist af ofnæmi að kyssa aðra manneskju í 30 mínútur. Kossaflens róar hinn þjáða og dregur úr framleiðslu histamíns sem veldur ofnæmisviðbrögðum, að því er breska götublaðið The Mirror hefur eftir japönskum vísindamönnum.
24 karlar og konur með frjókornaofnæmi voru látin kyssa maka sinn í 30 mínútur og var róandi tónlist leikin undir. Þá var önnur tilraun gerð en aðeins með faðmlögum, engum kossum. Blóðsýni úr fólkinu sýndu að magn mótefnis minnkaði í blóðinu eftir kossaflensið en ekki eftir faðmlög. Það sama átti við um fólk með ofnæmisútbrot.
Stjórnandi rannsóknarinnar, Hajime Kimata, segir niðurstöður benda til þess að kossar dragi úr ofnæmisviðbrögðum.