Google hefur skrifað undir samning við tölvufyrirtækið Dell, en með því hefur fyrirtækið tekið stórt skref í átt að því að ógna veldi tölvurisans Microsoft. Samningurinn þýðir að milljónir tölva frá Dell muni yfirgefa verksmiðjurnar með hugbúnaði frá Google.
Með hugbúnaðinum fylgja ýmis forrit, Google tækjastika og heimsíða merkta Google og Dell.
Þetta gæti reynst mikil áskorun á hendur Microsoft, en um 90% allra tölva í heiminum eru með hugbúnað frá Microsoft.
Tölvurisinn frá Seattle hefur notið gríðarlegra yfirburða gagnvart keppinautum sínum á tölvumarkaðinum, en tölvur hafa sjálfkrafa stillt sig inn á Microsoft hugbúnað.
Þá hefur venjan hefur verið sú að flestir halda sig við þau forrit sem fylgja vélinni og leita sömuleiðis að tækni sem vélinni fylgir.
Microsoft vinnur nú að því að búa til sína eigin leitarvél sem á að fylgja nýrri útgáfu Internet Explorer vafrans. Með þessu reynir Microsoft að stýra tölvunotendum að því að nota leitarþjónustu MSN, sem er í eigu Microsoft.
Þetta hefur valdið Google áhyggjum, en fyrirtækið kvartaði undan því að Microsoft væri með þessu að reyna koma í veg fyrir samkeppni. Bandaríska dómsmálaráðuneytið vísaði þessu hinsvegar á bug fyrir hálfum mánuði. Ráðuneytið segir að aðgerðir Microsoft brjóti ekki í bága við samkeppnislög.
Samningur Dell og Google er öflugt vopn þeirra í baráttunni við Microsoft. Hingað til hefur Google þurft að mestu að treysta á það að fólk hali niður hugbúnaði þess.
Auk þess að bjóða notendum að hlaða niður ýmis forrit þá kynnti Google nýja þjónustu í janúar sem kallast Google Pack. Um er að ræða hugbúnaðarbúnt frá fjölmörgum fyrirtækjum sem fólk hleður niður í einni lotu.
Þar er að m.a. að finna Google Earth kortaforritið, Firefox-vafra, Adobe PDF lesarann og Norton vírusvarnarforrit.
Nú mun fjöldi forrita frá Google fylgja Dell tölvum. M.a. leitarvél og tækjastika sem verður að finna á skjáborðinu.
Það sem mikilvægara er er að upphafsleitarvélin verður stillt á Google á Internet Explorer vafranum.
„Þetta er mikilvægur samningur fyrir bæði fyrirtækin. Þetta er mjög gott fyrir þá og mjög gott fyrir okkur,“ sagði forstjóri Google, Eric Schmidt.
Með þessu mun Google mögulega ná til neytenda sem hefðu annarsvegar nýtt sér þjónustu Microsoft.