Skynjara á reiðhjólum er ætlað að bjarga lífi og limum hjólreiðamanna í Danmörku. Umferðaryfirvöld í Árósum vilja með nýjum skynjara reyna að koma í veg fyrir slys, þar sem flutningabílar beygja til hægri án þess að taka eftir hjólreiðamönnum og klemma þá eða aka í veg fyrir þá. Þetta kemur fram á vef dagblaðsins Politiken.
Gerðar hafa verið tilraunir með sérstaka hliðarspegla og myndavélar á flutningabílunum, en enn hefur ekki tekist að koma í veg fyrir þessi slys. Hugmyndin er sú, að skynjara verði komið fyrir í reiðhjólunum sem geti þá sent skilaboð til ljósa, sem myndu lýsa og láta bílstjóra vita af yfirvofandi hættu, eða beint í móttakara í bílunum, sem myndu þá gefa frá sér hljóðmerki ef hjólreiðamenn væru nálægt.
Tilraunin verður gerð á götum Árósa frá fimmtudegi fram til 21. júní og munu póstmenn og skólabörn taka þátt í tilrauninni.