Segja jörðina með "hitasótt"

Washington. AP. | Hitinn í andrúmslofti jarðar hefur ekki verið meiri en nú í 400 ár að minnsta kosti og líklega lengur. Er það niðurstaða rannsóknar, sem bandaríska vísindaakademían vann fyrir Bandaríkjaþing.

Á fundi með þingmönnum sagði hópur vísindamanna og sérfræðinga í loftslagsmálum, að líkja mætti ástandinu við "hitasótt" og væri athöfnum manna aðallega um að kenna. Sögðu þeir, að á síðustu öld hefði yfirborðshiti á norðurhveli jarðar stigið um eina gráðu.

Vísindin eru til að læra af

Það var repúblikaninn Sherwood Boehlert, formaður vísindanefndar fulltrúadeildarinnar, sem bað um skýrsluna í nóvember síðastliðnum vegna efasemda ýmissa manna um gróðurhúsaáhrifin svokölluðu og hlut manna í þeim. Á þessum tíma hafði Joe Barton, repúblikani frá Texas, hafið sérstaka rannsókn á þremur vísindamönnum, sem varað höfðu við þróuninni, en Boehlert sagði er skýrslan lá fyrir, að Barton ætti framvegis að reyna að læra af vísindamönnum í stað þess að ofsækja þá.

Ríkisstjórn George W. Bush forseta hefur einnig haldið því fram, að gróðurhúsaáhrifin séu ekki nægilega mikil til að réttlæta strangari mengunarvarnir, sem að hennar sögn myndu kosta fimm milljónir Bandaríkjamanna atvinnuna.

Við rannsókn bandarísku vísindaakademíunnar voru meðal annars skoðaðar athuganir annarra vísindamanna og flestar þær aðferðir, sem notaðar hafa verið til að ákvarða hitastigið á ýmsum tímum. Af þeim má nefna athuganir á vaxtarhringjum trjáa frá ýmsum öldum, vöxt kóralla, breytingar á jöklum og það, sem lesa má úr borkjörnum frá heimskautunum. Þá segja setlög í sjó og vötnum sína sögu og vísindamennirnir skoðuðu jafnvel gömul málverk af jöklum til að átta sig á breytingunum. Þar fyrir utan var að sjálfsögðu stuðst við beinar hitamælingar svo langt aftur sem þær ná.

Niðurstaðan var, að hitastigið á síðustu öld hefði verið það hæsta í 400 ár og hitinn á síðustu áratugum hennar meiri en verið hefði í 1.000 ár.

Mengunin skipti sköpum

Fram kemur í skýrslunni, að magn metans og koltvísýrings í andrúmslofti hafi verið nokkuð það sama í 12.000 ár, en síðan rokið upp á síðustu öld. Segja þeir, að frá árinu 1 og til 1850 hafi eldgos og breytingar á styrk sólarljóssins ráðið mestu um breytingar á magni fyrrnefndra lofttegunda, en hitabreytingar af þeim sökum hafi þó verið miklu minni en eftir að mengun af mannavöldum kom til sögunnar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert