Íslendingar hamingjusamasta þjóð heims

mbl.is

Rannsókn sem tveir hagfræðingar við Háskólann í Ástralíu og Wharton háskóla í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum sýnir að Ástralir og Íslendingar eru hamingjusömustu þjóðir í heimi. Þetta kemur fram á vef breska blaðsins The Guardian. Í rannsókninni var fjöldi áhrifaþátta metinn á borð við lífslíkur, menntun og lífsskilyrði. En þrátt fyrir að sólskin virðist almennt vera mikilvægur þáttur í hamingju þá þykja Íslendingar jafnvel hamingjusamari en Ástralir.

Það voru vísindamennirnir Andrew Leigh og Justin Wolfers sem gerðu rannsóknina og reyndu þeir að meta sem flesta þætti þar sem þeim þóttu tölur um þjóðarframleiðslu ekki gefa rétta mynd. Það reyndist rétt því tiltölulega fátæk lönd á borð við Mexíkó og Nígeríu voru ofarlega á listanum.

Leigh segir að þrátt fyrir að Ástralir vinni mikið og séu oft ósáttir í starfi þá séu þeir hamingjusamari en flestir, þá segir hann hugsanlegt að veðrið eigi sinn þátt í hamingjuseminni en það sé augljóslega ekki tilfellið hjá Íslendingum. Hagvöxtur og lýðræði séu hins vegar áhrifamiklir þættir.

Austantjaldsþjóðirnar fyrrverandi eiga langt í land með að finna hamingjuna þótt tjaldið sé löngu fallið því Rússar, Úkraínumenn, Rúmenar og Búlgarar sitja á botni listans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert