Dell fartölvueigendum bent á að kanna framleiðslunúmer rafhlaða

Dell hefur kallað inn gallaðar rafhlöður í fartölvum.
Dell hefur kallað inn gallaðar rafhlöður í fartölvum. mbl.is

Eigendum Dell fartölva á Íslandi er bent á að fara inn á heimasíðu EJS þar sem settar hafa verið inn leiðbeiningar um það hvernig fólk getur kannað rafhlöður í fartölvum sínum og borið saman númer þeirra og númer þeirra rafhlaða sem innkölluð hafa verið af Dell fyrirtækinu.

Samkvæmt upplýsingum Halldórs Sæmundssonar, framkvæmdastjóra markaðssviðs EJS, eru litlar líkur á að margar slíkar rafhlöður séu í notkun hér á landi. Umræddar rafhlöður hafa hins vegar verið notaðar í mismunandi gerðir Dell fartölva á löngu tímabili og því segir halldór að erfitt geti verið að hafa uppi á þeim.

Þá segir hann að gengið hafa verið úr skugga um það í morgun að engar slíkar rafhlöður séu í þeim tölvum sem nú séu til sölu í verslun EJS.

Tölvuframleiðandinn Dell hefur innkallað 4,1 milljón rafhlaðna í fartölvum sem framleiddar voru frá apríl 2004 til júlí 2006 en rafhlöðurnar eru framleiddar af Sony-fyrirtækinu. Gallinn sem uppgötvaðist leiðir til ofhitnunar rafhlöðunnar sem getur hugsanlega leitt til eldsvoða.

Dell hefur fengið sex klögumál í Bandaríkjunum vegna elds í fartölum frá því í desember á síðasta ári en Halldór segir 360 þekkt tilfelli hafa komið upp þar sem kviknað hafi í farsímum og fartölvum, af ýmsum gerðum, á árunum 2003 til 2005.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert