Virtir bandarískir vísindamenn segja gatið á ósonlaginu yfir Suðurheimskautslandinu vera hætt að stækka og að von sé til þess að gatið lokist á næstu sextíu árum. "Ég er mjög bjartsýnn á að ósonlagið eigi eftir að verða eðlilegt á ný. Það verður ekki á minni ævi en kannski á þinni,” sagði Dr David Hofman, sem starfar hjá bandarísku sjávar- og loftslagsstofnuninni (NOAA).
Dr Susan Solomon, fulltrúi alþjóðlegrar nefndar um loftslagsbreytingar, tók í sama streng en ítrekaði þó að enn væri langt í land. “Það er mikil vinna fyrir höndum út frá vísindalegum sjónarhorni og varðandi það sem ég myndi kalla ábyrgðarskyldu,” sagði hún. “Ég tel mjög mikilvægt að við mælum lagið og fylgjumst með því. Ekki bara út frá því hvort ástandið versnar heldur einnig því hvernig það batnar, þannig að við getum gengið úr skugga um að þær alþjóðlegu ráðstafanir sem gripið hefur verið til hafi skilað árangri.”
Þau sögðust bæði telja að rekja mætti breytinguna til þess að verulega hafi verið dregið úr notkun efnisins CFC (chlorofluorocarbons) sem eyðir ósonlaginu. CFC var m.a. notað í kæliskápa og spreybrúsa en þau efni sem nú eru notuð í þess stað eru hins vegar talin stuðla að hækkandi hitastigi andrúmsloftsins.
Gatið á ósonlaginu uppgötvaðist árið 1986 og átti annar vísindamannanna þátt í því að vekja alþjóðasamfélagið til meðvitundar um hættuna sem af því stafaði. Ósonlagið ver jörðina fyrir útfjólubláum geislum sólarinnar sem eru skaðlegir bæði mönnum og dýrum.