Skurðaðgerð gerð við aðstæður líkar þyngdarleysi

Airbus A300 Zero-G í flugi.
Airbus A300 Zero-G í flugi. AP

Hópur franskra skurðlækna ætlar að gera skurðaðgerð á manni á miðvikudaginn við aðstæður sem verða svipaðar þyngdarleysi. Skurðaðgerð hefur aldrei verið gerð við slíkar aðstæður áður, en hún er liður í undirbúningi fyrir skurðaðgerðir í geimnum. Sérstök Airbus-þota, Airbus A300 Zero-G, mun flytja læknana og sjúklinginn upp í mikla hæð yfir suðvestur-Frakklandi og verður þar fituæxli fjarlægt.

Aðgerðin mun að öllum líkindum taka þrjár klukkustundir. Airbus A300 Zero-G er sérstaklega hönnuð til flugs þannig að farþegar og áhöfn upplifi ástand nærri þyngdarleysi, en fljúga þarf vélinni í fleygboga til þess.

CNES, geimrannsóknarstofnun Frakka, stendur fyrir þessari tilraun sem nýtur stuðnings Evrópsku geimferðastofnunarinnar ESA. Menn þar sjá fyrir sér að vélmenni geri í framtíðinni einfaldar skurðaðgerðir á mönnum úti í geimnum, þar sem slíkt gæti orðið nauðsynlegt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert