Óákveðinn greinir fundinn á tunglinu

Edwin E. Aldrin að störfum á tunglinu í júlí 1969. …
Edwin E. Aldrin að störfum á tunglinu í júlí 1969. Neil Armstrong tók myndina.

Ástralskur vísindamaður hefur, með því að beita háþróuðum tölvuforritum, fundið óákveðinn greini, enska orðið „a", í yfirlýsingu Neils Armstrongs sem hann flutti þegar hann steig fyrstur manna á tunglið 20. júlí árið 1969. Til þessa hefur verið talið, að Armstrong hafi mismælt sig og sleppt óákveðna greininum þegar hann talaði frá tunglinu.

„That's one small step for man, one giant leap for mankind," (Þetta er lítið skref fyrir manninn, en risastórt stökk fyrir mannkynið) virtist Armstrong segja þegar hann steig á yfirborð tungslins. Armstrong hefur hins vegar alltaf haldið því fram, að hann hafi ætlað að segja: „That's one small step for a man, one giant leap for mankind," (Þetta er lítið skref fyrir mann en risastórt stökk fyrir mannkynið). Segir Armstrong, að bæði hann og NASA, bandaríska geimferðastofnunin, telji að hann hafi í raun sagt þetta.

Undanfarin 37 ár hefur ríkt um þetta nokkur óvissa og í opinberum skjölum hafa báðar útgáfur sést. Nú segist Ástralinn Peter Shann Ford hafa, með því að beita nýrri tækni sem fyrirtæki hans hefur þróað, komist að þeirri niðurstöðu að Armstrong hafi í raun sagt „a man" á tunglinu. Ford rannsakaði hljóðupptökur af yfirlýsingu Armstrongs og segir að hið horfna „a" sé greinanlegt á 35 millisekúndna löngum kafla á upptökunni. Armstrong hafi því í raun sagt það en svo hratt að það sé varla greinanlegt.

Ford hefur kynnt þessar niðurstöður fyrir Armstrong, sem er 76 ára, og James Hansen, sem skrifaði ævisögu Armstrongs á síðasta ári. Þá hefur NASA einnig fengið niðurstöðurnar í hendur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert