Of feitum börnum í ríkjum ESB fjölgar um 400.000 árlega

Offita barna er heilsufarsvandamál og þá einkum í vestrænum löndum.
Offita barna er heilsufarsvandamál og þá einkum í vestrænum löndum. mbl.is

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lýsti í dag ánægju sinni með nokkur matvælafyrirtæki sem stutt hafa baráttuna gegn offitu í ríkjum sambandsins að undanförnu. Í óefni stefnir í mörgum ríkjum sambandsins og á hverju ári fjölgar of þungum börnum í ESB um 400.000.

Á meðal þeirra fyrirtækja sem Markos Kyprianou, heilbrigðisráðherra sambandsins lýsti ánægju með, voru PepsiCo, The Coca Cola Company, McDonald's Corp. og Kraft Foods Inc. Kyprianou hélt blaðamannafund með yfirmönnum fyrirtækjanna í dag, og sagði meðal annars að mikilvægt væri að fyrirtækin hjálpuðu til í baráttunni gegn offitu því Evrópusambandið geti ekki sett lög sem banna vörur sem ekki eru hættulegar.

Á meðal þeirra aðgerða sem fyrirtækin hafa lofað að grípa til er að minnka magn sykurs, fitu og salts í vörum sínum og að gera upplýsingar um innihald greinilegri á pakkningum.

Kyprianou sagði að samkvæmt upplýsingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar séu um 20% barna í ESB of þung. Þá telur stofnunin að um 30% barna á aldrinum sjö til 11 ára á Spáni, Ítalíu, Portúgal og Möltu þjáist af offitu. Um 20% barna á sama aldri þjást af offitu á Englandi, Írlandi, Kýpur og í Svíþjóð, en á milli 10 og 20% í Frakklandi, Póllandi, Tékklandi, Ungverjalandi, Þýskalandi, Danmörku, Hollandi og Búlgaríu.

Í næstu viku munu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Evrópusambandið halda sameiginlega ráðstefnu í Istanbúl í Tyrklandi þar sem fjallað verður um þessi mál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert