Það snúrufargan sem fylgir hleðslu og orkuöflun nútímaraftækja gæti brátt heyrt sögunni til, en bandarískir vísindamenn hafa gert frumdrátt að tiltölulega einföldu kerfi sem gæti aflað raftækjum, s.s.fartölvum og MP3-tónlistarspilurum, orku með þráðlausum hætti.
Hugmyndin byggir á aldagamalli eðlisfræðiaðferð og gæti, að sögn vísindamannanna, virkað í nokkurra metra fjarlægð.
Þrátt fyrir að vísindamennirnir hafi hvorki smíðað né prófað kerfið, þá hafa þeir sýnt fram á að þetta virki með aðstoða stærðfræðinnar og tölvulíkana.
„Það eru svo mörg sjálfstæð tæki, s.s. farsímar og fartölvur, sem hafa skotið upp kollinum á undanförnum árum,“ segir Marin Soljacic, sem er aðstoðarprófessor hjá MIT (Massachusetts Institute of Technology) og einn af vísindamönnunum sem vann að hugmyndinni.
„Við fórum að hugsa: „Væri það ekki afskaplega þægilegt ef þú þyrftir ekki að hlaða þessa hluti?“ Og vegna þess að við eru eðlisfræðingar spurðum við: „Hvers konar eðlislegt fyrirbrigði getum við notað sem gæti annast þennan þráðlausa orkuflutning?“
Svarið vísindamannanna er svokölluð „meðsveiflun“, en það er fyrirbæri sem fær hluti til þess að titra þegar ákveðinni orkutíðni er beitt.
„Þegar þú er með tvö tæki stillt á sömu tíðni þá vilja þau gjarnan para sig saman af krafti,“ sagði Soljacic í viðtali við fréttavef BBC.
Meðsveiflu má m.a. finna í hljóðfærum svo dæmi séu tekin.
„Þegar þú leikur lag á eitt [hljóðfæri], þá mun annað hljóðfæri með sömu hljómburðarmeðsveiflu grípa lagið, það mun beinlínis sjást titra,“ sagði hann.
Í stað þess að notast við þann titring sem myndast við hljómburð þá notuðu vísindamennirnir þá meðsveiflu sem rafsegulbylgjur mynda. Útvarpsbylgjur, innrauðir og röntgengeislar teljast til rafsegulgeislunar.
Alla jafna eru tæki sem nota rafsegulgeislun, s.s. útvarpsloftnet, ekki hæf til þess að flytja orku sökum þess að þau dreifa orkunni í allar áttir. Mikill hluti af orkunni fer því í súginn.
Til að koma í veg fyrir þetta rannsökuðu vísindamennirnir sérstaka hluti sem gefa ekki frá sér geislun sem eru með svokallaðri „langvarandi meðsveiflutíðni“. Þegar orku er beint að slíkum hlutum þá helst hún þar en fer ekki í allar áttir. „Orkuhalar“, sem geta verið margir metrar á lengd, flögra yfir yfirborðinu.
„Ef þú setur annan meðsveifluhlut með sömu tíðni nálægt þessum hölum þá kemur í ljós að hægt er að flytja orku frá einum hlut til annars,“ sagði Soljacic.