Líkamsrækt árangursríkari en megrunarkúrar gegn sjúklegri offitu

Konur sem þjást af sjúklegri offitu þurfa ekki að fara í megrunarkúra til að bæta heilsuna, segja breskir vísindamenn. Rannsókn leiddi í ljós að líkamleg og andleg heilsa kvenna sem tóku þátt í líkamsrækt batnaði verulega. Konurnar sem tóku þátt í rannsókninni fengu einnig leiðbeiningar um hollar matarvenjur og eldamennsku, og nutu félagslegs stuðnings.

Frá þessu greinir fréttavefur BBC.

Rannsóknin stóð í eitt ár og eftir þann tíma voru konurnar bæði búnar að léttast lítið eitt og voru mun hraustari og ánægðari með sjálfar sig. Vísindamennirnir sem gerðu rannsóknina starfa við háskóla í Leeds og Hull. Þeir segja að heilbrigðir lífshættir geti bætt heilsuna burtséð frá þyngd.

Sextíu og tvær konur tóku þátt í rannsókninni. Þær voru á aldrinum 24 til 55 ára og höfðu allar líkamsmassastuðul yfir 30, sem telst sjúkleg offita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert