Á undanförnum áratug hafa greinst hér á landi rúmlega 100 manns með berkla og er rúmur helmingur þeirra með erlent ríkisfang (54%). Öll árin voru útlendingar stór hluti þeirra sem greinast með berklasmit. Þetta kemur fram í farsóttarfréttum landlæknisembættisins.
Það sem einkennir Íslendinga sem greinast með berkla er að þeir eru oftast aldraðir, samkvæmt farsóttarfréttum. Þeir hafa smitast á fyrri hluta síðustu aldar og gengið með berklabakteríuna án þess að veikjast fyrr en ónæmiskerfið veikist sökum aldurs eða sjúkdóma.
Eins hefur komið í ljós að nýbúum hér á landi, sem eru með berklasmit við komu til landsins, er hætt við að fá berkla innan 5 ára.
Rík ástæða til að fylgjast með smiti meðal innflytjenda
„Það er rík ástæða til að fylgjast með berklasmiti meðal innflytjenda til Íslands. Almenna reglan er að líta til þess hvaðan innflytjendur koma og hvort berklar séu landlægir í heimalandinu.
Ef komið er til landsins og sótt um dvalarleyfi vegna tímabundins atvinnuleyfis hefur verið lögð áhersla á að taka lungnamynd til að útiloka smitandi berkla. Aðrir dvalarleyfisumsækjendur gangast undir tekin lungnamynd og fyrirbyggjandi meðferð gefin eftir sérstökum reglum. Mikilvægt er að hafa eftirlit með smituðu fólki.
Ástæða er til að benda á að við inngöngu Rúmeníu og Búlgaríu í Evrópubandalagið (EB) mun berklatilfellum fjölga í bandalaginu um 50%. Ástæðan er gríðarlega há tíðni berklasmits í þessum tveim löndum. EB er þarna nokkur vandi á höndum þar sem ekki er krafist læknisvottorða vegna fólksflutninga innan bandalagsins. Í sóttvarnalögum eru ákvæði um að ráðherra geti sett reglugerð um rannsókn á fólki sem kemur til landsins ef sóttvarnalæknir telur hættu á að smit hættulegs smitsjúkdóms geti borist til landsins með fólki frá svæðum þar sem hann er útbreiddur. Skiptir þjóðerni þá ekki máli," samkvæmt farsóttarfréttum.