Umskurður karla dregur úr líkum á HIV smiti

Arun, þriggja ára, Gopika, tveggja ára, og Subiksha, 4 mánaða, …
Arun, þriggja ára, Gopika, tveggja ára, og Subiksha, 4 mánaða, sem öll eru HIV smituð á munaðarleysingjaheimili í Madras á Indlandi. AP

Rannsókn sem fram fór á meðal tveggja ættbálka í Afríku sýnir að allt að helmingi minni líkur eru á því að gagnkynhneigðir karlar sem hafa verið umskornir smitist af HIV veirunni en gagnkynhneigðir karlar sem ekki hafa verið umskornir. Rannsókninni var hætt fyrr en til stóð þar sem Bandaríska heilbrigðiseftirlitið sagði áfanganiðurstöður rannsóknarinnar það afgerandi að ekki væri siðferðislega rétt að halda rannsókninni áfram. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknanna sem tóku til 8.000 karla í tveimur ættbálkum í Úganda og Kenýa, dró verulega úr tíðni HIV smits meðal karla sem höfðu verið umskornir. Nam samdrátturinn 53% í Kenýa en 48% í Úganda.

Niðurstöður rannsóknanna eru mun meira afgerandi en niðurstöður fyrri rannsókna sem þó benda í sömu átt. Sérfræðingar vara þó við því að ekki megi túlka niðurstöðurnar þannig að umskurður geti komið í stað annarra varnaraðgerða eins og notkun smokka við samfarir.

Til stóð að rannsóknirnar stæðu fram á næsta ár og að niðurstöður þeirra yrðu kynntar í júní og september á næsta ári. Er áfanganiðurstöður lágu fyrir var hins vegar ákveðið að hætta rannsókninni og bjóða körlunum í samanburðathópunum að láta umskera sig.

Sambærilegri rannsókn sem framkvæmd var í Suður-Afríku á síðasta ári var einnig hætt fyrr en til stóð af sömu ástæðu.

Talið er að rekja megi tengsl umskurðar og hættu á HIV smiti til þess að frumur í forhúð karla séu viðkvæmari fyrir smiti en aðrir hlutar kynfæra þeirra. Þá dregur umskurður úr viðkvæmni húðarinnar undir forhúðinni sem dregur út líkum á blæðingum við samfarir.

Þegar HIV veirunnar varð fyrst vart í Afríku vakti það strax athygli vísindamanna að umskornir karlar virtust síður eiga á hættu að smitast en karlar sem ekki voru umskornir. Á þeim tíma var hins vegar ekki ljóst hvort aðrir þættir spiluðu þar inn, svo sem munur á kynlífshegðun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert