Risastór ísjaki hefur brotnað frá meginísnum á norðurskautinu

Vísindamenn hafa uppgötvað, að risastór íshella hefur brotnað frá meginísnum Kanadamegin á norðurskautssvæðinu. Um er að ræða stærsta ísjaka, sem brotnað hefur frá meginísnum í aldarfjórðung en hann er talinn vera um 66 ferkílómetrar að stærð.

Jakinn myndaðist í ágúst á síðasta ári en sást ekki á gervihnattamyndum fyrr en nú. Óttast er að hann geti valdið tjóni ef hann flýtur inn á olíuvinnslusvæði eða siglingaleiðir á næsta ári.

BBC hefur eftir Luke Copland, prófessor við Ottawaháskóla, að íshafið sé nú frosið og jakinn sé fastur um 50 km frá strönd Ellesmere eyju. Hætta sé hins vegar á því, að jakinn losni næsta sumar og fari vestur í átt að Beauforthafi þar sem er stór olíu- og gasvinnslusvæði og tíðar skipaferðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert