Sviti karla getur bætt skap og aukið kynferðislega örvun kvenna

Reuters

Efni í svita karlmanna getur bætt skap gagnkynhneigðra kvenna, aukið heilastarfsemi og kynferðislega örvun, samkvæmt nýrri rannsókn sem birt hefur verið nú rétt fyrir Valentínusardaginn. Þetta eru fyrstu beinu vísbendingarnar um að fólk gefi frá sér lykt sem hefur lífeðlisfræðileg áhrif á hitt kynið.

Rannsóknin var unnin af vísindamönnum við Háskólann í Kaliforníu í Berkeley, og voru niðurstöðurnar birtar nú í vikunni í The Journal of Neurocience.

„Þetta er í fyrsta sinn sem sýnt hefur verið fram á breytingar á hormónamagni hjá konum eigi rætur að rekja til lyktar sem þeir finna af tilteknu efnasambandi í svita karlmanna.“ sagði Claire Wyart, sem stjórnaði rannsókninni. „Það er mun meira á seyði en við gerum okkur grein fyrir þegar við finnum líkamslykt.“

Rannsóknin var gerð á síðasta ári. Þátttakendur voru 48 konur sem stunda nám við skólann. Þær þefuðu 20 sinnum úr flösku sem í var andróstatínón, efnasamband sem er að finna í svita og fleiri líkamsvessum karla.

Mælt var magn streituhormónsins kortisóls í konunum og borið saman við magnið þegar konurnar fundu aðra lykt. Kortisólmagnið jókst hjá konunum um 15 mínútum eftir að þær fundu lyktina af andróstatínóninu og hélst hærra í rúma klukkustund.

Einnig kom í ljós að blóðþrýstingur hækkaði, hjartsláttur jókst og öndun varð hraðari, skapið batnaði og kynferðisleg örvun varð meiri. Þótt efnið hafi bætandi áhrif á líðan kvennanna og kynörvun þeirra er ekki fyllilega ljóst með hvaða hætti það hefur áhrif á atferli þeirra, sagði Wyart.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert