Ítalskir vísindamenn hafa fundið kókaínagnir í loftinu í Róm, og er þéttni þeirra mest í miðborginni, einkum í grennd við La Sapienza-háskólann, að því er rannsóknarráð Ítalíu greindi frá í vikunni. Er talið að kókaín hafi ekki fundist með þessum hætti í borgum áður. Einnig fundust merki um efni sem er í maríjúana og hassi, nikótín og koffín.
Mest mældist þéttni kókaínagna um eitt nanógramm á rúmmetra yfir vetrarmánuðina, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar. Hún náði einnig til borgarinnar Taranto á Suður-Ítalíu og Algeirsborgar í Alsír. Mun minna magn af kókaíni fannst í loftinu í Taranto, en ekkert í Algeirsborg. Nikótínog koffín fundust aftur á móti í öllum borgunum þrem.