Íslenskur læknir stýrir sykursýkisrannsóknum

Niðurstöður víðtækra erfðarannsókna sem Hákon Hákonarson, íslenskur læknir í Bandaríkjunum, stýrir benda til að hægt verði í 40 til 50% tilvika að koma í veg fyrir sykursýki 1 í börnum. Þetta kom fram í fréttum Útvarpsins í kvöld.

Á vef RÚV kemur fram að Hákon Hákonarson er forstöðumaður fyrir erfðarannsóknasviði Barnaspítala Fíladelfíu í Bandaríkjunum og stýrir hópi vísindamanna sem hafa rannsakað sykursýki eitt í börnum.

Sykursýki eitt kemur fram hjá um 0,2% barna og Hákon segir að yfirleitt komi sjúkdómurinn í ljós fyrir 12 ára aldur.

Í Bandaríkjunum má því gera ráð fyrir að 7-10.000 börn greinist árlega með þennan sjúkdóm. Rannsóknin er mjög viðamikil og er unnin í samvinnu við barnaspítalann í Montreal í Kanada. Alls voru rannsökuð rúmlega 2.000 börn og þúsund foreldrar í frumrannsókninni, annar eins hópur í staðfestingarrannsókn sem sýndi sömu niðurstöður. Grein um niðurstöðurnar birtist í dag í vísindaritinu Nature.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert