Át á greipaldinum getur aukið líkur á brjóstakrabbameini

Át á greipaldinum daglega geta aukið líkur á því að fá brjóstakrabbamein um allt að þriðjung, samkvæmt nýrri rannsókn bandarískra vísindamanna. Alls tóku fimmtíu þúsund konur þátt í rannsókninni en greint er frá niðurstöðum rannsóknarinnar í breska læknatímaritinu British Journal of Cancer.

Á vef BBC kemur fram að konurnar sem tóku þátt í rannsókninni voru allar komnar á breytingaskeiðið. Niðurstöður benda til þess að með því að borða fjórðung úr greipaldin á dag jukust líkurnar á því að fá brjóstakrabbamein um 30%.

Er talið að ávöxturinn auki magn estrógens en hormóninn er talinn auka líkur kvenna á að fá krabbamein í brjóst. Hins vegar telja þeir sem stóðu að rannsókninni að taka beri fregnunum með varúð og að fleiri rannsóknir þurfi að gera áður en eitthvað er fullyrt í þessum efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert