Skyndileg fjölgun dauðsfalla af völdum heilaétandi slímdýrs

Dauðsföllum af völdum mannskæðs slímdýrs, eða amöbu, sem lifir í stöðuvötnum hefur fjölgað skyndilega í Bandaríkjunum að undanförnu. Slímdýrið kemst inn í mannslíkamann gegnum nefgöngin og ræðst á heilann og nærist á honum uns fórnarlambið deyr.

Slímdýrin eru agnarsmá, og mjög fágætt er að menn verði fyrir árás þeirra. En það sem af er árinu hafa þessi dýr, sem helst minna á eitthvað úr hryllingsmyndum, orðið sex drengjum og ungum mönnum að bana í Bandaríkjunum.

Heilbrigðisyfirvöld hafa áhyggjur af þessari skyndilegu fjölgun tilfella, og er því spáð að enn fleiri tilvik eigi eftir að koma í ljós.

„Þessi amaba kann vel við sig í hita. Eftir því sem hitastig í vötnum hækkar því betur spjarar hún sig. Eftir því sem hitastig kemur til með að hækka á næstu áratugum mun tilvikum fjölga,“ segir sérfræðingur hjá Sjúkdóma- og forvarnamiðstöð Bandaríkjanna.

Samkvæmt tölum stofnunarinnar varð umrætt slímdýr, Naegleria fowleri, tuttugu og þremur að bana í Bandaríkjunum á árunum 1995-2004. En á þessu ári hafa greinst þrjú tilvik í Flórída, tvö í Texas og eitt í Arizona. Einungis eru nokkur hundruð tilvik þekkt í heiminum síðan amaban uppgötvaðist í Ástralíu á sjöunda áratugnum.

Naegleria er að finna í flestum vötnum, hverum og jafnvel í óhreinum sundlaugum. Þeir sem amaban ræðst á eiga litla möguleika á lækningu, og fátítt að þeir lifi af.

Talsmaður Sjúkdómavarna Bandaríkjanna segir að fólk hafi í raun litla ástæðu til að óttast sýkingu. Tilfellin séu afar fá miðað við þann fjölda fólks sem syndir í vötnum hvarvetna í heiminum. Og einfalt ráð til að afstýra sýkingarhættu alveg sé að synda með nefklemmu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert