Frakkar grípa til aðgerða gegn ólöglegri dreifingu efnis á netinu

mbl.is/Árni Torfason

Frakkar hyggjast grípa til aðgerða gegn ólöglegri dreifingu á höfundarvörðu efni og mega þeir sem dreifa þannig tónlist eða kvikmyndum eiga von á að verða meinaður aðgangur að netinu. Netþjónustur og kvikmynda- og tónlistariðnaðurinn hafa komist að samkomulagi um að komið verði á fót stofnun sem hafa mun vald til að grípa til ýmissa úrræða til að stöðva dreifinguna.

Þegar tilkynnt var um samkomulagið sögðu forsvarsmenn hópsins að ætlunin væri ekki að berjast við umfangsmikla starfsemi svokallaðra sjóræningjahópa, heldur að koma í veg fyrir sjóræningjadreifingu venjulegra netnotenda.

Forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, hefur sagt samninginn mikilvægan fyrir framtíð siðmenntaðs netsamfélags.

Netþjónustur munu samkvæmt samkomulaginu fylgjast með netnotkun viðskiptavina sinna. Samkomulagið er niðurstaða vinnu rannsóknarhóps um málið sem netfyrirtæki, stjórnvöld, plötuútgáfur og kvikmyndaframleiðendur hafa unnið að til að komast að samkomulagi.

Dnis Olivennes, forstjóri verslanakeðjunnar Fnac sem selur afþreyingu og raftæki, fór fyrir nefndinni segir að refsingar sem nú eru í gildi, háar sektir og fangelsisdómar séu í engu samhengi við brot ungs fólks sem dreifir efni á netinu.

Útgefendur fallast í samkomulaginu á að flýta útgáfu mynda á DVD og styðja stafræna útgáfu tónlistar án afritunarvarna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert