Samkeppnisráð hefur komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið EJS hafi brotið gegn samkeppnislögum með yfirlýsingum um að það beri enga ábyrgð á hugbúnaði í neytendakaupum og sé yfirlýsingin því ógild. Þá brjóti svonefndur EULA samningur sem fylgir hugbúnaði sem EJS selur, í bága við samkeppnislög en í samningnum er m.a. ákvæði um að að ekki sé hægt að skila hugbúnaðinum eftir að honum hefur verið hlaðið inn í tölvu og að allt viðhald og gallar séu á ábyrgð neytanda.
Málið var tekið upp að ósk Neytendasamtakanna sem gerði athugasemdir annars vegar við að neytendur gætu gegn greiðslu fengi flýtiþjónustu á viðgerð á tölvum sem væru í ábyrgð og hins vegar við að undanþykki hugbúnað fyrir tölvur, það er stýrikerfi og notendahugbúnað, ábyrgð.Samkeppnisráð komst að þeirri niðurstöðu, eftir ítarlega gagnaöflum, að ekki hefði verið sýnt fram á að neytendur hafi orðið fyrir töfum eða skaða af flýtiþjónustu og því teldi ráðið ekki að greiðsla fyrir flýtiþjónustu EJS fyrir tölvur sem eru í ábyrgð hjá fyrirtækinu brjóti gegn góðum viðskiptaháttum í skilningi ákvæða samkeppnislaga. Varðandi svonefnda EULA-samninga (End User License Agreement) segir samkeppnisráð að í EULA-samningi að finna ýmsar yfirlýsingar um ábyrgð á að hugbúnaður virki eins og til er ætlast, þó í takmarkaðan tíma sé. Jafnframt sé vísað til frekari ábyrgðaryfirlýsinga sem fylgi hugbúnaðinum. Í yfirlýsingum íslenskra fyrirtækja við afhendingu hugbúnaðar sé aftur á móti ekki að finna neinar slíkar yfirlýsingar heldur eingöngu tilkynningar um að engin ábyrgð sé tekin á hugbúnaði þar sem hann sé leigður en ekki seldur. Samkeppnisráð fái ekki betur séð en að íslenskir afhendingaraðilar hugbúnaðar, þ.m.t. EJS, hafi með firringu allrar ábyrgðar gengið lengra en almennt gerist í EULA-samningum. Jafnframt séu EULA-samningar eingöngu á ensku, flóknu tækni- og lagamáli, þrátt fyrir að skýrt sé tekið fram í 23. gr. samkeppnislaga að almennir skilmálar þjónustuaðila skuli vera á íslensku. Þá taldi samkeppnisráð einnig, að afhending hugbúnaðar til neytenda hafi allt yfirbragð lausafjárkaupa en ekki leigu. Sala hugbúnaðar falli því undir kaupalög. Samkvæmt ákvæðum kaupalaga sé kaupanda í neytendakaupum tryggður réttur til að bera fyrir sig galla á söluhlut í tvö ár frá því að kaup eiga sér stað. Jafnframt geti hann krafist þess að seljandi bæti úr göllum eða láti annan hlut í staðinn. Hins vegar telji EJS fyrirtækið undanskilið ábyrgð á öllum göllum hugbúnaðarins með leigusamningi. Komst samkeppnisráð að þeirri niðurstöðu að EJS hafi með yfirlýsingum um enga ábyrgð á hugbúnaði brotið gegn ákvæðum 24. gr. samkeppnislaga. Úrskurður samkeppnisráðs í heild