9. nóvember, 2006
Aðalheiður Una Sigurbjörnsdóttir

Aðalheiður Una Sigurbjörnsdóttir

Aðalheiður Una Sigurbjörnsdóttir fæddist á Geitagili í Örlygshöfn, Rauðasandshreppi 23. maí 1915. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli 31. október síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Sigurbjörn Guðjónsson bóndi á Geitagili og í Hænuvík við Patreksfjörð, f. í Reykjavík 14. september 1891, d. 18. apríl 1971, og kona hans Ólafía Magnúsdóttir, f. á Hnjóti í Örlygshöfn í Rauðasandshreppi 14. desember 1890, d. 28. september 1972. Systkini Aðalheiðar Unu voru Bjarni Sigurvin, f. 24. nóvember 1916, d. 10. september 1990, Sigurbjörg, f. 1. janúar 1919, d. 13. apríl 1998, Búi, f. 7. apríl 1920, d. 27. apríl 1937, Esther, f. 14. febrúar 1923, d. 31. maí 1974, Gyða, f. 9. desember 1925, d. 6. mars 1937, Hulda, f. 6. desember 1926, d. 29. maí 1937, og Ásta, f. 28. apríl 1932, d. 4. mars 1939. Og tvíburabræðurnir Valtýr Agnar og Guðjón Björgvin, f. 7. júlí 1928, sem lifa systkini sín.

Una fluttist til Reykjavíkur 18 ára og réð sig í heimilishjálp hjá Eldeyjar-Hjalta á Bræðraborgarstíg. Síðar vann hún á saumastofu. Una giftist Theodóri Bergsteini Theodórssyni mótasmið 29. febrúar 1936. Foreldrar hans voru Theodór Jónsson útgerðarbóndi á Stokkseyri og kona hans Steinunn Þórðardóttir. Börn Unu og Theodórs eru: 1) Gyða, maki Narfi Hjörleifsson. Börn þeirra Aðalheiður Una, Halldóra, Sigurbjörn og Theodór. 2) Gylfi, maki Erla Björgólfsdóttir. Börn þeirra Hólmfríður Sigrún, Theodór og Ólafur Elvar. 3) Hulda, var gift Guðmundi Jónssyni, þau skildu. Börn þeirra eru Kristján og Margrét. Seinni maður Huldu er Guðmundur E. Þórðarson. 4) Sigurbjörn, maki Birna Markúsdóttir. Sigurbjörn á Egil með Önnu Tryggvadóttur. 5) Theodór, maki Anna Lyck Filbert. Börn þeirra eru María, Friðrik, Emma, Fríða og Bjarni. 6) Steinar Engilbert. Barnabarnabörn Unu eru 13.

Útför Aðalheiðar Unu verður gerð frá Neskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.