Árvakur

Morgunblaðið

Saga Morgunblaðsins

Morgunblaðið kom fyrst út 2. nóvember 1913 og var fyrsta blaðið 8 bls. að stærð. Upphafsmaðurinn að stofnun blaðsins var Vilhjálmur Finsen sem hafði átt sér þann draum í fjölda ára að koma út blaði í Reykjavík. Ólafur Björnsson, vinur hans og samherji, lagði til húsnæði og prentaðstöðu í Austurstræti 8 þar sem Ísafold var til húsa. Í fyrsta blaðinu sem kom út er meðal annars ritað:

"Dagblað það sem hér byrjar starf sitt, á fyrst og fremst að vera áreiðanlegt,
skemtilegt og lipurt ritað fréttablað."

Það sem þá var ritað stendur enn. Viðtökur fyrstu tölublaðanna báru þess merki að ferskir vindar blésu um íslenska blaðaútgáfu því blaðið var bókstaflega rifið út. Morgunblaðið varð fljótlega víðlesnasta blað landsins. Nýtt félag í Reykjavík, sem litlu síðar fékk nafnið Árvakur hf., festi kaup á blaðinu 1919 og hefur gefið blaðið út síðan. Félagið réð ritstjórana Valtý Stefánsson og Jón Kjartansson og þeir ásamt Sigfúsi Jónssyni framkvæmdastjóra blaðsins lögðu grunn að styrkri stöðu Morgunblaðsins í íslenskri fjölmiðlun.
Morgunblaðið dafnaði og lesendum fjölgaði og hafði starfsemin aukist svo að huga varð að byggingu nýs húss. Árið 1956 fluttist Morgunblaðið í nýtt hús í Aðalstræti 6. Nokkrir áratugir liðu og kom að því að starfsemin var komin á fjóra staði í borginni og þurfti nú að huga aftur að flutningum.
Árið 1984 var tekið í notkun nýtt prentsmiðjuhús með nýrri prentvél og pökkunarvélum í Kringlunni 1. Um níu árum síðar eða 1993 var lokið við síðari áfanga hússins í Kringlunni og öll starfsemi Morgunblaðsins var flutt undir eitt þak í nýtt húsnæði sem er samtals 7.000 m[^2^]. Fyrsta blaðið sem unnið var að öllu leyti í nýju húsi kom út 14. apríl 1993.

Morgunblaðið í dag

Árvakur hf. er enn eigandi Morgunblaðsins og rekur einnig vefinn mbl.is, prentsmiðjuna Landsprent og finna.is. Árvakur fluttist í Hádegismóa í Reykjavík norðan við Rauðavatn árið 2006. Síðan haustið 2004 hefur Morgunblaðið verið prentað hjá Landsprenti í glæsilegu prentsmiðjuhúsnæði við Hádegismóa. Í dag geta áskrifendur Morgunblaðsins valið um að lesa Moggann í blaðaformi, á netinu eða í spjaldtölvum.

Framkvæmdastjóri Árvakurs er Haraldur Johannessen. Ritstjórar Morgunblaðsins eru þeir Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen.
Aðstoðarritstjóri er Karl Blöndal.

Greinasafn Morgunblaðsins

Morgunblaðið hóf að geyma fréttir, greinar og minningargreinar á tölvutæku formi árið 1987 undir heitinu Greinasafn Morgunblaðsins. Nýtt efni bætist í safnið á hverjum útgáfudegi. Vegna þess gífurlega magns upplýsinga sem Greinasafnið hefur að geyma gefur það óendanlega möguleika í leit og söfnun upplýsinga, um hvaðeina sem þörf er á hvort heldur það eru einstök málefni, fyrirtæki eða fólk. Efni í safninu eldra en þriggja ára er aðgegnilegt án greiðslu.

Í samstarfi við opinbera aðila hefur Morgunblaðið verið myndað og gert aðgengilegt á vefnum á stafrænu formi . Hægt er að skoða blaðið eins og það kom út hvern útgáfudag og leita í textanum. Myndun blaðsins er ekki lokið en er langt komin.

Þá eru öll eintök Morgunblaðsins frá fyrsta eintakinu sem kom út 2. nóvember 1913 geymd á örfilmum.

Myndasafn Morgunblaðsins

Í Myndasafni Morgunblaðsins er að finna gríðarlegt magn ljósmynda og bætast við nýjar myndir í safnið á hverjum degi. Fyrirtæki og einstaklingar geta með einföldum hætti keypt myndir úr safninu. Leit í safninu er ókeypis en verð mynda er miðað við notkun. Fjölbreytni Myndasafns Morgunblaðsins er mikið enda eru þar að finna myndir af öllu milli himins og jarðar. Hægt er að nota myndirnar m.a. til birtinga í frétta- og félagsblöðum, tímaritum, bókum, ársskýrslum, geisladiska- og myndabandaumslögum, bæklingum, auglýsingum, fréttum, sýningarbásum, á Netinu, í fyrirlestrum og ráðstefnum auk ýmissa annarra nota þar sem hugmyndaflugið eitt ræður.