Miðvikudagur, 16. desember 2009
Birgir Björnsson
Birgir Björnsson fæddist í Borgarnesi 23. september árið 1941. Hann lést á Sjúkrahúsi Akraness þriðjudaginn 8. desember 2009. Foreldrar hans voru hjónin Björn Hjörtur Guðmundsson, f. 14. janúar 1911, d. 14. júlí 1998 og Inga Ágústa Þorkelsdóttir, f. 25. ágúst 1917, d. 22. febrúar 1993. Systir Birgis var Alda Björnsdóttir, f. 30. ágúst 1942, d. 7. júlí 1991.
Barnsmóðir Birgis er Ingibjörg Nancy Morgan, f. 12. júlí 1943, barn þeirra er Guðbjörg Peggy Wallace, f. 28. júlí 1960. Eiginmaður Peggyar er Lon Wallace, f. 9. apríl 1960. Dætur þeirra eru Christina Réene, f. 23. október 1989 og Erika ,f. 3. október 1991.
Barnsmóðir Birgis var Guðrún Hjarðar Vermundsdóttir, f. 17. ágúst 1946, d. 1. janúar 1970, barn þeirra er Jón Marinó Birgisson, f. 23. janúar 1966. Eiginkona Jóns er Herdís Rós Kjartansdóttir, f. 15. desember 1972. Börn þeirra eru Kjartan, f. 18. desember 1993 og Heiðdís Erla, f. 7. febrúar 2000.
Birgir bjó nær allan sinn aldur í Borgarnesi. Að skyldunámi loknu starfaði hann fyrst sem verkamaður á heimaslóðum en síðar lá leiðin til sjós, ýmist á vertíðir eða í siglingar. Þar starfaði hann um árabil. Um tíma á áttunda áratug liðinnar aldar bjó Birgir á Eskifirði, vann þar jafnt til sjós og lands. Þaðan lá leiðin síðan til Færeyja, eftir stutta dvöl þar flutti Birgir að nýju í Borgarnes. Þar starfaði Birgir við hin fjölbreytilegustu verkefni. Síðustu árin og allt til starfsloka hjá BM Vallá. Í frístundum seinni ár naut Birgir þess mjög að ferðast um landið á vel búnum húsbíl sínum. Myndlistin lék um árabil stórt hlutverk í lífi Birgis. Hann var alfarið sjálfmenntaður í listsköpun sinni – verk hans báru handverki hagleiksmannsins fagurt vitni.
Útför Birgis fór fram frá Borgarneskirkju miðvikudaginn 16. desember, síðastliðinn.
„Biggi Björns“ þótti í mínu ungdæmi með svölustu gaurum. Á þeim árum var hann að mestu í siglingum og sigldi vítt um höf. Flutti að utan stæl og strauma. Fagurlega stungið tattú á sterklegum handlegg var ein táknmynd þess. Hollingin skotheld. Dulur. Brá sjaldnast svip. Minnti helst á Clint í góðum vestra. Óttablandin virðing stráks fyrir þessari leyndardómsfullu hetju hafsins var með öllu ósvikin. Stundum áð um sinn á heimaslóð. Gripið í verk, málað sumarpart eða slegið upp fyrir húsi. Og djammað, oftar lengur en dagur entist. Útþráin sterk. Ný ævintýr kynnu að leynast handan við haf eða í plássi við fjöllum girtan fjörð. Leit að betra lífi, innri friði - sátt á nýjum lendum. Lífið tók svo nýja stefnu – gyðja listarinnar fyllti í tómið. Snúið heim. Hlúð að upprunarótum. Tilverunni fundinn fastur punktur, í skjóli, þar sem hjartað fyrrum sló. Af smekkvísi færðu hagar hendur snotru húsi líf. Draumur rættist, gljáfægt „fley“ á stétt. Ætíð árla risið. Er sól reis hæst skyldi gæfuhjólið knúið. Vel snyrtur, léttstígur, fimur með glettnisglampa í auga: „Mundi! Allt klárt! uppbúið fyrir einn, sængur fyrir tvo.“ Bakföll og kunnugleg sveiflan fylgdi. Svona var nágrennið jafnan; spjallað í alvörulausri gleði. Ættlægt skopskynið óbrigðult – gamnið græskulaust. Sögurnar flutu ein af annari svo áreynslulaust. Alþýðulistamaður, næmur á litbrigði og form. Sköpunarverk manns og náttúru urðu yrkisefnin. Sjaldan nokkru flíkað. Sérviskan var vörumerki - lagði sínar línur - spurði sjaldnast ráða - fetaði sína slóð. Treysti á verðleika mannsins - ætlaði engum neitt – síst að axla hans eigin byrði. Undir að því er virtist hrjúfu yfirborðinu bjó viðkvæmur og velviljaður maður. Feimni og hlédrægni hafa sennilega ráðið meiru um lífshlaup þessa sérstæða og hæfileikaríka manns en nokkuð annað. Hann var natinn og sinnugur um flest annað en eigin velferð - þar voru býttin slæm. Þegar halla fór að lyktum hafði lífið tekið sinn toll. Síðustu misserin, vopnaður hugprýði og kjarki tókst hann á við illvígan andstæðing allt þar til yfir lauk. Hélt sínu striki svo lengi sem kraftar entust. Trúin á að allt færi vel var einlæg og sönn. Lítið samfélag fjölskyldu og vina stendur fátækara eftir. Minningin um Birgi Björnsson mun lifa enn um sinn í mannvænlegum afkomendum og handverkinu traustu og listilega unnu. Ekki slæm arfleifð það. Með samúðarkveðju til fjölskyldu og syrgjandi vina.
Ingimundur Einar Grétarsson