Allt að 12 ára fangelsi fyrir leikmenn Leicester

Knattspyrnumennirnir þrír úr enska félaginu Leicester City, sem nú eru í haldi á Spáni, eiga yfir höfði sér allt að 12 ára fangelsisdóm ef þeir verða fundnir sekir um þau atriði sem þeir eru ákærðir fyrir.

Þeir Paul Dickov, Frank Sinclair og Keith Gillespie urðu eftir í Cartagena á Spáni í gær þegar hinir sex sem handteknir voru sneru aftur til Englands. Þremenningarnir eru kærðir fyrir kynferðislega árás með einbeittum vilja, sem þýðir að þeir eru ásakaðir um nauðgun. Samkvæmt spænskum lögum þýðir það allt að 12 ára fangelsi.

Forráðamenn Leicester segja að þeir vinni hörðum höndum að því að fá þremenningana heim til Englands og vonast til þess að það gerist á næstu dögum. Líklegra er þó talið að þeir komist ekki burt frá Spáni fyrr en í fyrsta lagi eftir þrjár vikur. Þeir Dickov og Gillespie eru báðir lykilmenn í liði Leicester, Dickov er fyrirliði liðsins, en það er næstneðst í ensku úrvalsdeildinni og á erfiða fallbaráttu fyrir höndum næstu vikurnar. Næsti leikur Leicester er gegn Birmingham eftir viku, laugardaginn 13. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert