Hildigunnur Einarsdóttir, handknattleikskona úr Fram, hefur ákveðið að leika með Val í DHL-deildinni á komandi vetri. Hildigunnur er einn efnilegasti leikmaður deildarinnar og lék stórt hlutverk með Fram á síðustu leiktíð. Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, staðfesti væntanleg félagsskipti í samtali við Morgunblaðið en að hans sögn eru félögin að vinna í félagaskiptum hennar. Ágúst segir Hildigunni vera framtíðarleikmann hjá Val og mikið efni sé þar á ferðinni. Hildigunnur hefur átt fast sæti í 18 ára landsliðinu sem lék á dögunum á Evrópumóti í Svíþjóð. Ágúst reiknar ekki með að fleiri breytingar verði á leikmannahópi Vals en liðið hefur þegar fengið Pövlu Skavronkovu til þess að verja markið í stað Berglindar Hansdóttur sem hélt til Danmerkur og leikur með SK Aarhus næsta vetur.