Ástralska landsliðið í handknattleik, sem mætir Íslendingum í fyrstu umferðinni á HM í Þýskalandi á laugardaginn, hefur unnið tvo stórsigra síðustu daga. Ástralir dvelja í æfingabúðum í Danmörku og hafa leikið þar gegn landsliðum Írlands og Stóra-Bretlands, en síðarnefnda liðið er skipað leikmönnum frá Englandi, Wales og Skotlandi og er að hefja sinn undirbúning fyrir handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í London árið 2012.
Ástralir unnu yfirburðasigra í báðum leikjunum sem fram fóru í Rödding þar sem ástralska liðið hefur aðsetur. Þeir sigruðu Íra 35:19 á laugardaginn, eftir að staðan í hálfleik var 22:8, og síðan möluðu þeir Bretana, 37:14, í fyrradag. Þar var leikurinn lengri en gengur og gerist, 3x25 mínútur.
Ástralir höfðu áður mætt Grænlendingum í Danmörku og tapað fyrir þeim, 25:34.