Rhodes sá um Keflavík

Hart barist í leik liðanna á Sauðárkróki á síðasta tímabili.
Hart barist í leik liðanna á Sauðárkróki á síðasta tímabili. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Bandaríkjakonan Jordyn Rhodes skoraði bæði mörk Tindastóls þegar liðið gerði góða ferð til Keflavíkur og lagði heimakonur að velli, 2:0, í 9. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Tindastóll fór með sigrinum upp í sjötta sæti þar sem liðið er með tíu stig. Keflavík fór niður í fallsæti, það níunda, þar sem liðið er áfram með sex stig.

Aðstæður til knattspyrnuiðkunnar voru svo sannarlega til fyrirmyndar í Keflavík í kvöld. Óvenju hægt logn (á keflvískan mælikvarða), skýjað, smá sól um tíma og svo smá væta í lokin.

Leikurinn sjálfur var mjög fjörugur strax frá byrjun. Á annarri mínútu átti Elísa Bríet Björnsdóttir leikmaður Tindastóls fínt skot á lofti sem lenti ofan á þverslánni eftir fyrirgjöf.

Liðin skiptust á að sækja eftir markið en gestirnir voru aðgangsharðari og fengu urmul af hornspyrnum. Það var svo úr einni slíkri sem Jordyn Rhodes stýrði boltanum í markið með skalla framhjá Veru Varis í marki Keflavíkur. 1:0 fyrir Tindastól á 28.mínútu.

Keflvíkingar svöruðu markinu með hörkufæri mínútu síðar þegar Melanie Forbes átti hörkuskot úr vítateig sem Monica Wilhelm, í marki Tindastóls, varði vel.

Á 45.mínútu átti Elísa Bríet Björnsdóttir hörkuskalla sem Vera Varis varði vel í markinu.

Staðan 1:0 fyrir Tindastól í hálfleik.

Seinni hálfleikur byrjaði rólega, miklar þreifingar voru á báðum liðum og fátt markvert sem gerðist. Gestirnir reyndu að sækja annað markið og voru nálægt því á 61.mínútu þegar Elísa Bríet fékk sendingu inní teig og átti skot rétt framhjá fjærstöng.

Tæpum tíu mínútum síðar, á 70.mínútu, fengu Keflavíkurstúlkur sitt besta færi. Eftir hornspyrnu Tindastóls fengu Keflvíkingar skyndisókn.

Saorla Miller fékk boltann inn fyrir vörn Tindastóls sem var framarlega á vellinum. Hún komst ein í gegn en Hugrún Pálsdóttir, varnarmaður Tindastóls, kom á sprettinum og náði að teygja tánni í boltann þegar Saorla var að skjóta og Hugrún bjargaði þessu í horn. Virkilega vel gert hjá Hugrúnu!

Keflavík reyndi að jafna leikinn en eftir hornspyrnu á 85.mínútu átti Monica í marki Tindastóls, frábært inngrip þegar hún handsamaði góðan bolta sem var að lenda á fjærstöng, kom boltanum í leik og Tindastóll þeyttist uppí sókn.

Jordyn fékk boltann á vítateig Keflavíkur eftir sendingu frá vinstri. Hún tók sér stöðu hægra megin í teignum, var ein á auðum sjó og náði að skora í fjærhornið framhjá Veru Varis. 2:0 fyrir Tindastól þegar fjórar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

Keflavík var svo nálægt því að minnka muninn þegar 5 mínútu voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma þegar Saorla Miller átti frábæran skalla á mark Tindastóls en Monica Wilhelm varði vel.

Leiknum lauk í kjölfarið og gríðarlega öflugur 2:0 útisigur hjá Tindastóli staðreynd.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Keflavík 0:2 Tindastóll opna loka
90. mín. Jordyn Rhodes (Tindastóll) fær gult spjald Fyrir brot á Anitu Lind
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert