Sjötta tap Fylkis í röð - Þór/KA á sigurbraut

Níundu umferðinni í Bestu-deild kvenna í fótbolta lýkur í kvöld með fjórum leikjum. Þór/KA vann góðan 3:1-sigur á Fylki á Þórsvellinum á Akureyri en staðan í hálleik var 1:1.

Fylkir er nú kominn í botnsætið eftir sex tapleiki í röð. Þór/KA er þremur stigum á eftir Breiðablik og með jafnmörg stig og Valur þegar þetta er skrifað. Valur spilar við FH þessa stundina..

Fyrri hálfleikurinn var ansi líflegur hjá liðunum í kvöld. Þór/KA blés strax til sóknar og fékk urmul af hornspyrnum snemma leiks. Lítið kom út úr þeim og í raun kom lítið út úr yfirburðum heimakvenna úti á vellinum. Þær náðu að skapa eitt og eitt skotfæri en Tinna Brá Magnúsdóttir í marki Fylkis var í litlum vandræðum með skot Þórs/KA.  

Hún réði samt ekki við bylmingsskot frá Hildi Önnu Birgisdóttur um miðjan hálfleikinn. Boltinn virtist breyta aðeins um stefnu á leið sinni á markið og var þá Tinna Brá komin úr jafnvægi, 1:0. Heimakonur héldu áfram að sækja stóran hluta hálfleiksins en bættu ekki við marki.

Hulda Björg Hannesdóttir miðvörður Þórs/KA skallar í átt að marki …
Hulda Björg Hannesdóttir miðvörður Þórs/KA skallar í átt að marki Fylkis í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Fylkiskonur fengu sín upphlaup og hefðu alveg getað nýtt þau betur þar sem varnarnet Þórs/KA var ansi gisið á köflum þegar liðið var búið að liggja framarlega. Góð sókn Fylkis skilaði marki skömmu fyrir hálfleik. Fylkir tók hornspyrnu og boltinn datt niður í teig heimakvenna. Guðrún Karítas Sigurðardóttir náði á endanum að ýta boltanum í markið og stóð þá 1:1 í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn bauð ekki upp á sama hasarinn og sá fyrri og jafnræði var með liðunum lengstum. Þór/KA komst í 2:1 þegar 20 mínútur voru eftir af leiknum. Hulda Björg Hannesdóttir fylgdi eftir skalla frá Söndru Maríu Jessen. Boltinn fór í slá og niður og var Hulda Björg fyrst að átta sig.

Skömmu síðar bætti Lara Ivansua við marki með þrumuskoti og staðan því allt í einu orðin 3:1.

Botninn datt svo aðeins úr leiknum á lokakaflanum og fátt markvert gerðist.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Þór/KA 3:1 Fylkir opna loka
90. mín. Það eru sex mínútur aukalega. Ég hélt að þær yrðu fleiri þar sem leikmenn hafa legið mikið í grasinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert