Fórum í nýtt leikkerfi

Pálmi Rafn Pálmason á hliðarlínunni á Víkingsvellinum.
Pálmi Rafn Pálmason á hliðarlínunni á Víkingsvellinum. mbl.is/Óttar

„Við gerðum smá breytingar og vorum í öðru leikkerfi en við höfum verið með í undanförnum leikjum en það er svo sem við vorum eitthvað farnir að ræða svo við héldum því til streitu og erum komnir með nýtt leikkerfi og nýjar stöður fyrir ákveðna leikmenn,“ sagði Pálmi Rafn Pálmason sem tók við sem þjálfari KR eftir síðasta leik liðsins og náði í kvöld 1:1 jafntefli við topplið Víkings þegar leikið var í Víkinni í efstu deild karla í fótbolta.

Pálmi Rafn var lengi vel fyrirliði KR og hefur um tíma verið aðstoðarþjálfari en tók nú við og fékk til liðs við sig Bjarna Eggert Guðjónsson, sem líka var fyrirliði KR og þjálfari.

„Ég fékk svo sem ekki mikinn tíma til að undirbúa þennan leik en við vorum þá bara að hugsa um þennan leik og þurfum nú að skoða hvað við gerum fyrir næsta leik en hvernig við leggjum hann upp, þá er ég ekkert farinn skoða það.“

Helstu breytingarnar hjá KR

Þjálfarinn útskýrir helstu breytingarnar og er sérstaklega ánægður með fyrirliða sinn, Theodór Elmar Bjarnason í nýrri stöðu. 

„Okkar helstu breytingar eru að við förum í þriggja til fimm manna vörn, sem reyndist meira fimm manna vörn í dag því Víkingar eru góðir og duglegir við að hreyfa boltann vel á milli kanta og ná þannig að pína okkur vel niður. 

Við spiluðum því með fimm manna vörn, tvo inná miðju og þrjá frammi sem er frábrugðið 4-3-3 kerfinu sem við höfum notað.   Theodór Elmar tekur væng-bakvörðinn og neglir það, frábær karakter og kvartar hvorki né kveinar, gerir bara það sem honum er sagt að gera og gerir það vel í dag, sem er frábært. 

Svo verjumst við betur en við höfum verið að gera enda gríðarleg ákveðni í liðinu sem vill sýna að við séum betri en við höfum sýnt undanfarið.“

Við berum allir ábyrgð á stöðu liðsins

Eins og kunnugt er var Gregg Ryder látinn taka pokann sinn sem þjálfari KR eftir tap fyrir ÍA í síðasta leik en Pálmi Rafn segir ekki rétt að benda bara á hann.

„Ég held að þegar svona gerist þá verðum við að átta okkur á því að við eigum allir sök á máli, sem ég hef sagt oft og er bara sannleikurinn.  Hins vegar þarf Gregg að taka höggið en allt þjálfarateymið og allir leikmennirnir eiga þátt í stöðu okkar og höfum ekki verið að standa okkur nógu vel. 

Það er bara svoleiðis en þegar svona  þarf að gera og er gert, þá er þetta jafnvel vakning fyrir liðið og við vitum að nú er þetta alvara.  Gregg er frábær manneskja sem missir starfið en þetta er eins og spark í rassinn og við þurfum að koma til baka,“ bætti þjálfarinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert