Þurftum að þreifa fyrir okkur í nýjum stöðum

Aron Kristófer Lárusson og Ari Sigurpálsson í leiknum á Víkingsvelli.
Aron Kristófer Lárusson og Ari Sigurpálsson í leiknum á Víkingsvelli. mbl.is/Óttar

„Við vorum nokkrir í nýjum stöðum og þurftum aðeins að þreifa okkur áfram, sem Víkingar nýttu sér þangað til við fundum taktinn.

Eftir það fannst mér við ná að stjórna leiknum svolítið án boltans því Víkingar voru að spila fyrir framan okkur og mikið með boltann en ég held að við höfum  eftir það átt hættulegustu færin þegar við nýttum skyndisóknir og skiluðum okkar.  Við þurftum bara að stoppa ákveðna blæðingu,“ sagði Theodór Elmar Bjarnason fyrirliði KR eftir 1:1 jafntefli við Víkinga í Víkinni í kvöld þegar leikið var í efstu deild karla í knattspyrnu.

Nýr þjálfari stjórnaði KR í kvöld, Pálmi Rafn Pálmason með Bjarna Eggert Guðjónsson sér til aðstoðar, því Gregg Ryder var látinn fara eftir tap í síðasta leik.  

„Við vitum alveg að Pálmi Rafn og Bjarni eru frábærir þjálfarar enda hafa þeir verið í teyminu og allir tilbúnir að hlaupa og deyja fyrir þá.  Þeir eru líka miklir KR-ingar og við erum allir til í að deyja fyrir klúbbinn. 

Auðvitað er leiðinlegt þegar einhver missir vinnuna, Gregg er frábær gaur og frábær þjálfari en stjórnin taldi þetta vera rétt spor og við styðjum það, snúum bökum saman og reynum að snúa þessu við,“ bætti fyrirliðinn við.

Theodór Elmar Bjarnason fyrirliði KR.
Theodór Elmar Bjarnason fyrirliði KR. mbl.is/Kristinn Steinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert