Kristján hættur með Stjörnuna – Jóhannes tekinn við

Kristján Guðmundsson er hættur störfum hjá Stjörnunni.
Kristján Guðmundsson er hættur störfum hjá Stjörnunni. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Kristján Guðmundsson hefur látið af störfum sem þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar í knattspyrnu. Jóhannes Karl Sigursteinsson hefur verið ráðinn í hans stað.

Í tilkynningu frá knattspyrnudeild Stjörnunnar segir að Kristján hafi óskað eftir því að láta af störfum. Hann tók við starfinu í október árið 2018. Stjörnunni hefur gengið illa að undanförnu og er dottið niður í áttunda sæti Bestu deildarinnar eftir  fjóra tapleiki í röð.

Jóhannes Karl er reyndur þjálfari sem þjálfaði lið Stjörnunnar áður á árunum 2005 til 2007 og síðan kvennalið Breiðabliks, HK/Víkings og KR.

„Kristján Guðmundsson hefur óskað eftir því að stíga til hliðar sem þjálfari meistaraflokks kvenna. Kristján Guðmundsson tók við liði Stjörnunnar í október 2018 og undir hans stjórn hefur liðið tekið miklum framförum, bætt árangur sinn á milli ára og tekið þátt í Evrópukeppni félagsliða.

Á sama tíma og við þökkum Kristjáni kærlega fyrir vel unnin störf og óskum honum velfarnaðar í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur þá tökum við vel á móti nýjum þjálfara en Jóhannes Karl Sigursteinsson hefur unnið með þjálfarateyminu við leikgreiningar síðustu 2 ár og þekkir því vel til liðsins.

Takk kærlega fyrir okkur Kristján Guðmundsson og velkominn Jóhannes Karl Sigursteinsson,“ sagði í tilkynningu knattspyrnudeildar Stjörnunnar.

Jóhannes Karl Sigursteinsson er tekinn við sem þjálfari Stjörnunnar.
Jóhannes Karl Sigursteinsson er tekinn við sem þjálfari Stjörnunnar. Ljósmynd/Stjarnan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert