Margt sem við hefðum getað gert betur

Emil Atlason ýtir við Oliver Ekroth í leik liðanna í …
Emil Atlason ýtir við Oliver Ekroth í leik liðanna í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, var maður fárra orða er hann mætti í viðtal til mbl.is eftir 4:0-tap liðsins í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Víkingar voru öflugir og við áttum slæman dag. Þeir voru bara betri en við í dag.“

Varnarleikur liðsins var ekki góður í dag og hefur ekki verið frábær í sumar. Þið hafið fengið 28 mörk á ykkur, með aðeins Vestra og Fylki sem hafa fengið fleiri mörk á sig. Hvað finnst þér um það?

„Það er svekkjandi. Ég held að allir séu ósáttir við það og það er eitthvað sem við þurfum að laga.“

Í fyrsta markinu sem þið fáið á ykkur, stuggar Danijel [Dejan Djuric] aðeins við Óla Val [Ómarssyni], fannst þér það vera brot?

„Ég er ekki að fara að ræða dómgæsluna í dag, hún skiptir ekki máli.“

Þið mætið aftur Víkingi í undanúrslitum bikarsins í næstu viku í Fossvoginum. Hvernig ætlið þið að undirbúa ykkur fyrir það?

„Við lærum vonandi eitthvað af þessum leik. Við þurfum fyrst og fremst að berjast meira. Margt sem við hefðum getað gert betur hérna í dag og við verðum að gera það annars fer það ekki vel. Þannig að við þurfum að gera margt betur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert