Þetta er drulluerfið deild

Danijel Dejan Djuric lagði upp þrjú mörk í sigri Víkinga …
Danijel Dejan Djuric lagði upp þrjú mörk í sigri Víkinga í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Víkingur lagði Stjörnuna, 4:0, í 12. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Garðabænum í kvöld. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var kampakátur í viðtali við mbl.is eftir leik.

„Þetta var virkilega öflug frammistaða. Fyrri hálfleikur var stórkostlegur, þegar við erum í þessum ham er erfitt að eiga við okkur. Hefðum kannski átt að skora aðeins fleiri mörk, sérstaklega í fyrri hálfleik en við tökum 4:0 sigur á þessum erfiða útivelli hvenær sem er,“ sagði Arnar í viðtali við mbl.is eftir leik.

Í fyrri hálfleik voruð þið með algjöra stjórn á leiknum og hefðuð auðveldlega getað farið inn í hálfleik í stöðunni 4:0 eða 5:0. Varstu svekktur að fara inn í hálfleik í stöðunni 2:0?

„Já í stöðunni 2:0 þá líður manni ekkert svakalega vel. Þetta blessaða þriðja mark. Þeir væntanlega töluðu um í hálfleik að reyna setja í 2:1 og setja smá pressu á okkur en sem betur fer gerðum við þriðja markið sem gerði út um leikinn.

Stundum segja menn að það sé gott að fá færi en er ekki betra líka að nýta þau? Ég á eftir að sjá þessi færi aftur, mér fannst þetta vera rosalega góð færi til að fara illa með.“

Þið höfðuð gert tvö jafntefli í röð fyrir leikinn í dag, fyrst gegn Val og síðan KR í síðustu umferð. Varstu ánægður með viðbrögð liðsins eftir tvo jafnteflisleiki?

„Já, Valsleikurinn var þvílíkt öflugt jafntefli. KR-leikurinn var vel spilaður af okkar hálfu en við náðum ekki að klára hann. Við fengum ekki nægilega mörg færi, kannski áttum við ekki skilið að vinna hvorugan leikinn.

En meðan að þú ert í smá öldudal sjáðu þá til þess að þú sért ekki að tapa leikjum. Sjáðu til þess að þú sért að fá stig svo þú haldir þér ofarlega á töflunni. Það var það sem við gerðum. Gerðist á svipuðum tíma í fyrra, þegar við töpuðum gegn Val og gerðum jafntefli við Blikana. Það var okkar öldudalur þá.

Nú byrjum við aftur tímabilið með góðum 4:0-sigri. Þetta er drulluerfið deild og mér finnst eins og pendúllinn sé að snúast fram og til baka. Stundum er Valur með meðbyr,stundum við og stundum Blikar. Við erum að leita í reynslubankann núna, búnir að vinna nokkra titla og fara aftur í það sem við gerðum vel þau tímabil og vera slakir.“

Næsti leikur er aftur gegn Stjörnunni á heimavelli ykkar í undanúrslitum bikarsins. Hvernig undirbýrðu þann leik?

„Það er náttúrulega allt annar leikur, sá leikur er nýtt líf. Væntanlega 2.000 manns á Víkingsvelli og geggjðu stemning. Við elskum þennan bikar og við ætlum að gera hvað sem er til að halda honum í Víkinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert