Ætluðum að koma af krafti en urðum undir

Halldór Árnason þjálfari Breiðabliks.
Halldór Árnason þjálfari Breiðabliks. mbl.is/Eyþór

„Við vissum að FH kæmi af miklum krafti inn í þennan leik og ætluðum að gera það líka en urðum svo undir í baráttunni, sérstaklega til að byrja með en svo fannst mér við byrja að spila betur þegar leið á fyrri hálfleik,“ sagði Halldór Árnason þjálfari Breiðabliks eftir 1:0 tap fyrir FH á Kaplakrika í kvöld þegar leikið var í efstu deild karla í fótbolta. 

Halldór þjálfari sagði mark FH hefði getað komið en ekki þegar Blikar voru komnir í gang.  „Svo kemur þetta mark hjá þeim gegn gangi leiksins og hefði jafnvel komið þá fyrr, rétt fyrir hálfleik.  Það breytti öllu og FH-ingar bara múruðu fyrir í seinni hálfleik og gerðu það vel, við náðum ekki nógu flæði til að skapa færi til að brjóta þá á bak aftur,“ sagði Halldór.

Hættulegt að vera alltaf að skoða töfluna

Breiðablik er enn í öðru sæti deildarinnar með 26 eftir 13 umferðir en Víkingar eru efstir með 30 stig og Valur fyrir neðan með 25 stig.  „Mótið er ekki hálfnað og það er rosalega hættulegt að vera alltaf að skoða töfluna – hvað er að gerast á toppnum eða ekki.  Þetta snýst bara um að eiga góða frammistöðu, vinna leiki, safna stigum og reyna að vera með eins mörg og hægt er þegar kemur að úrslitakeppninni.  Vera síðan þar í baráttunni, það er markmiðið,“ bætti þjálfarinn við.

Blikar voru með sterka leikmenn á varamannabekknum lengi vel, t.d. markahrókinn Jason Daða Svanþórsson en settu hann og fleiri inná á 55. mínútu.  „Við ákváðum að setja fjóra inná í einu til að breyta hlutunum og mér fannst það gerast þegar við þrýstum FH aftar á völlinn og mér fannst þetta skapa betri og fleiri færi til að jafna leikinn.  Menn lögðu sig alla fram í leikinn og reyndu sitt besta miðað við aðstæður, loðinn þungur völlur og hífandi rok.   Þetta var bara baráttuleikur og því miður urðum við undir í þeirri baráttu í byrjun leiks og mér fannst við líka linir í vörninni þegar FH skorar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert