Löglegt mark augljóslega tekið af okkur

Adam Ægir Pálsson í leik með Val gegn KR á …
Adam Ægir Pálsson í leik með Val gegn KR á síðasta tímabilil. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Þetta var gríðarlega svekkjandi. Skaginn er mjög erfiður útivöllur að koma á,“ sagði Adam Ægir Pálsson, kantmaður Vals, eftir að liðið tapaði 3:2 fyrir ÍA í Bestu deildinni í knattspyrnu á Akranesi í kvöld.

„Það var rok og þurrt gras, sem er ótrúlega erfitt, en við hefðum átt að reyna að halda allavega í stigið og ekki gefa þetta svona frá okkur. Þetta er gríðarlega súrt,“ bætti Adam Ægir við.

Áttum meira skilið

Valur hóf leikinn af gríðarlegum krafti en ÍA sneri svo taflinu við í fyrri hálfleiknum. Aðspurður kvaðst hann ekki vita hvað hafi valdið þessum miklu sviptingum.

„Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því svona stuttu eftir leik. Stundum eru leikir kaflaskiptir. Í fyrsta lagi var tekið löglegt mark af okkur, alveg augljóslega löglegt mark.

Stundum sviptast svona hlutir fyrir manni, það gefur hinum meðbyr og þeir skora. Stundum gerast svona hlutir en mér fannst við byrja seinni hálfleikinn vel og vorum góðir þegar við skorum og erum með stjórn á leiknum.

Svo ná þeir að setja eitt mark í lokin, sem við vorum að leita að. Stundum er það þannig að maður er óheppinn og stundum finnst manni allt vera á móti manni en þá verður maður bara að stíga upp og halda áfram.

Þetta var klárlega löglegt mark í fyrri hálfleik og við eigum skilið að ná þremur stigum og allavega einu stigi en stundum er það þannig,“ sagði Adam Ægir.

Þurfum að vinna alla leiki

Val hafði gengið vel að undanförnu og þrátt fyrir tapið í kvöld hefur hann engar áhyggjur af framhaldinu.

„Nei, alls ekki. Við erum bara með þannig lið að við þurfum að vinna hvern einasta leik. Það er aftur leikur á þriðjudaginn og við verðum að vinna hann, það er undanúrslitaleikur í bikarnum.

Svo er aftur leikur á föstudaginn. Við verðum að vinna alla leiki. Ég hef engar áhyggjur af okkur. Við bara stígum aftur upp eftir þetta. Við þurfum bara að rífa okkur í gang, það er bara svoleiðis,“ sagði Adam Ægir að lokum við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert