Valur tryggði sér úrslitaleik við Breiðablik

Jasmín Erla Ingadóttir úr Val með boltann í dag.
Jasmín Erla Ingadóttir úr Val með boltann í dag. mbl.is/Óttar

Valur tryggði sér sæti í úrslitum bikarkeppni kvenna í fótbolta með heimasigri á Þrótti, 3:0, í seinni undanúrslitum á Hlíðarenda í dag. Valur mætir Breiðabliki í úrslitum.

Valskonur byrjuðu af krafti og fyrsta markið kom á 7. mínútu. Sæunn Björnsdóttir varð þá fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir hættulega sendingu frá Fanndísi Friðriksdóttur.

Þróttarar svöruðu vel og María Eva Eyjólfsdóttir var í tvígang nálægt því að jafna. Fyrst varði Fanney Inga Birkisdóttir vel og síðan varði Anna Björk Kristjánsdóttir á línu. Skömmu á undan varði Fanney glæsilega frá Leuh Pais.

Valskonur fagna marki í dag.
Valskonur fagna marki í dag. mbl.is/Óttar

Þrótti tókst hins vegar ekki að skora og Jasmín Erla Ingadóttir refsaði hinum megin með öðru markinu á 45. mínútu er hún skoraði eftir sendingu frá Amöndu Andradóttur og voru hálfleikstölur 2:0.

Þrótti gekk verr að skapa sér opin færi í seinni hálfleik á meðan Valskonur voru sáttar við stöðuna. Staða Valskvenna varð svo enn betri á 80. mínútu þegar María Eva Eyjólfsdóttir skoraði annað sjálfsmark leiksins, eftir skot frá Camryn Hartman sem Mollee Swift varði í samherja sinn.

Færin urðu ekki mikið fleiri og Valur mætir Breiðabliki í úrslitum bikarkeppninnar á Laugardalsvelli 16. ágúst næstkomandi.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Valur 3:0 Þróttur R. opna loka
90. mín. Þróttur R. fær hornspyrnu Væntanlega síðasti séns gestanna til að skora.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert