Verkefni sem reynir á líkama og sál

Ólöf Sigríður í góðum gír.
Ólöf Sigríður í góðum gír. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hún er stórkostleg persóna og það er fjör í kringum hana en ég treysti því að við höldum góðum anda í hópnum og verðum í góðum gír þó að Olla sé ekki að fíflast í kringum alla,” sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Íslands í fótbolta en landsliðskonan Ólöf Sigríður Kristinsdóttir sleit krossband í hné í síðustu viku.

Hún er þar með úr leik það sem eftir er ársins, bæði með íslenska landsliðinu og Breiðabliki.

„Ég ræddi við hana í gærkvöldi en það er voða lítið sem maður getur sagt, hún er að ganga í gegnum þetta ferli. Maður reynir að styðja hana eins og hægt er og hvetja hana áfram, allir sem hafa gengið í gegnum krossbandaslit eða verið í kringum einstakling sem fara í gegnum þetta vita að þetta er verkefni sem reynir á líkama og sál.

Það þarf að styðja báðar hliðar í þessu, vinna vel í líkamanum og andlegi þátturinn er mikilvægur í þessu ferli, í grunninn er þetta 12 mánaða ferli. Þetta er þungt í henni núna en þetta er bara byrjunin á þessu en hún tekst á þetta og kemur sterkari til baka,“ sagði Þorsteinn á blaðamannafundi í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert