Handboltamaðurinn á skotskónum

Benedikt Gunnar Óskarsson varð Evrópubikarmeistari með Val í byrjun sumars
Benedikt Gunnar Óskarsson varð Evrópubikarmeistari með Val í byrjun sumars mbl.is/Jóhann Ingi

Benedikt Gunnar Óskarsson, handboltamaður úr Val, skoraði tvö mörk og tryggði Knattspyrnufélagi Hlíðarenda sigur á Kríu í fjórðu deild karla í gær. Benedikt var valinn besti leikmaður úrvalsdeildar karla í vetur.

Benedikt skoraði sautján mörk og setti met í bikarúrslitum karla í vetur þegar Valsmenn sigruðu ÍBV í Laugardalshöllinni en hann reimaði á sig takkaskóna fyrir KH sem er venslafélag Vals í fótbolta. 

Benedikt er örvfættur og þótti efnilegur knattspyrnumaður en valdi handboltann. Hann þurfti ekki nema tuttugu mínútna innkomu af bekknum til að skora tvö mörk og tryggja KH 4:2 sigur á Kríu frá Seltjarnarnesi. Staðan var 2:2 þegar Hallgrímur Dan Daníelsson, þjálfari KH, skipti Benedikt inn á og Benedikt þakkaði traustið.

Benedikt hefur samið við norska liðið Kolstad sem leikur í Meistaradeildinni á næsta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert