Þeir sem væla yfir álagi vilja ekki spila

Danijel Djuric með boltann í leiknum í kvöld.
Danijel Djuric með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar

„Þeir voru bara betri, spiluðu vel og pressuðu okkur vel. Fyrri hálfleikur var góður hjá okkur en seinni var bara þjáning,“ sagði Danijel Djuric, leikmaður Íslands- og bikarmeistara Víkings í fótbolta sem vann Fram, 2:1, á heimavelli í Bestu deild karla í kvöld. 

Víkingar áttu erfiðan seinni hálfleik, voru neðarlega á vellinum og fengu ekki mikið af færum. 

Var planið að vera svona langt niðri í seinni hálfleik? 

„Nei, þeir pressuðu okkur bara svo vel. Við reyndum að spila en þeir voru bara alltaf á milljón og höfðu bara engu að tapa, gáfu allt í þetta og voru sterkari en við.“

Danijel skoraði annað mark Víkings sem kom undir lok fyrri hálfleiks. 

„Ég sá þetta gerast svona fimm sekúndum áður en ég fékk boltann, ég vissi að ég væri að fara að skora. Þetta var ótrúlega spes tilfinning. Kalli fer niður með boltann og vippar honum yfir allan pakkann og ég hugsa bara ég skora hérna og gerði það bara.“ 

Danijel fékk svipað færi í fyrri hálfleik sem var líka eftir sendingu frá Karli Friðleifi Gunnarssyni en það heppnaðist ekki jafn vel og endaði hjá Ólafi Íshólm í markinu. 

„Þetta kom svo hratt að mér, boltinn brást ekki við mér.“

Víkingar gerðu sex breytingar á byrjunarliði sínu fyrir leikinn og hafa breytt liðinu mikið á milli leikja.

„Maður er vanur því núna, það hefur verið mjög mikið af rótertingu í sumar og maður lifir bara með því.“

Víkingur spiluðu á fimmtudaginn, í dag, mæta svo Stjörnunni á miðvikudaginn í bikar og svo byrjar Evrópukeppnin 9. júní svo það er mikið leikjaálag framundan. 

„Þetta er bara gaman. Mér finnst geggjað að spila leiki, skemmtilegra en að æfa. Ef einhver er að væla yfir því þá vilja þeir ekki spila fótbolta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert