Höfum nýtt færin okkar miklu miklu betur

Víkingurinn Birta Birgisdóttir og Guðrún Karitas Sigurðardóttir úr Fylki
Víkingurinn Birta Birgisdóttir og Guðrún Karitas Sigurðardóttir úr Fylki mbl.is/Árni Sæberg

„Við hefðum viljað öll þrjú stigin og þetta er fúlt,“ sagði Sigdís Eva Bárðardóttir sem átti fínan leik fyrir Víkinga er þeir mættu Fylki í Árbænum í kvöld þegar leikið var í 11. umferð efstu deildar kvenna í fótbolta.

Mótstaðan var mikil en það vantaði mark þrátt fyrir að Sigdís Eva legði sitt af mörkum í mörgum sóknum Víkinga. „Við höfum spilað betur en við gerðum í dag og nýtt færin okkar miklu miklu betur en stundum gerist svona. Það er alltaf erfitt að koma hingað í Árbæinn en við erum með gott lið sem á að vinna Fylki.  Bæði liðin eru nýliðar í deildinni og við viljum þá auðvitað vinna þennan leik.“

Víkingskonur eru enn í 5. sæti deildarinnar með 16 stig, jafnmörg og FH en aðeins slakari markatölu.  Sigdís Eva segir gengi liðsins ágætt. „Ég veit ekki alveg hverju við bjuggumst við en fyrsta markmið okkar var að vera fyrir neðstu tvö sætin svo það er stór plús að vera í efri hlutanum.  Við erum að ná vel saman sem lið, útlendingarnir okkar hafa komið sterkar inn,“ bætti hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert