Skemmtum okkur og þá spilum við vel

Shaina Ashouri úr Víkingi reynir að ná boltanum af Abigail …
Shaina Ashouri úr Víkingi reynir að ná boltanum af Abigail Boyan úr Fylki mbl.is/Árni Sæberg

„Ég held að þetta hafi verið einn af betri leikjum okkar í sumar en við vorum líka að skemmta okkur við að spila þennan leik og þá spilum við vel,“ sagði Tinna Brá Magnúsdóttir markvörður Fylkis eftir markalaust jafntefli við Víkinga í Árbænum í kvöld þegar leikið var í efstu deild kvenna í fótbolta.

Markvörðurinn vildi eðlilega sigur en var samt sátt við framlag liðsins. 

„Mér finnst svekkjandi að fá ekki þrjú stig en gott að halda hreinu og baráttan var flott í dag. Bæði lið vildu fá markið til að ná í þrjú stig en ég er ótrúlega ánægð með stelpurnar, þær börðumst ótrúlega hart í vörninni og við stóðum okkur miklu betur en við höfum verið að gera svo ég er ánægð með frammistöðuna þó það hefði verið gott að skora eitt mark, eða tvö. Það hefði verið frábært að skora en við spiluðum betur en oft í sumar.“

Með sigrinum komst Fylkir af botni deildarinnar, með einu stigi tókst Árbæingum að taka 9. sætið af Keflvíkingum, sem töpuðu fyrir Stjörnunni fyrr í dag.  Um næstu helgi mun svo sverfa til stáls þegar Fylkir mætir einmitt Keflvíkingum suður með sjó.

„Við eigum Keflavík á sunnudaginn og það gæti verið gott að vinna þann leik en við förum samt í hvern leik til að vinna eða reyna það,“ bætti markvörðurinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert