Þegar ég byrjaði árið 2003 var þetta malarvöllur

Jóhannes Karl Sigursteinsson.
Jóhannes Karl Sigursteinsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jóhannes Karl Sigursteinsson stýrði sínum fyrsta leik sem þjálfari Stjörnunnar á nýjan leik þegar að liðið vann Keflavík, 1:0, í 11. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í Garðabænum í kvöld.

Jóhannes þjálfaði Stjörnuna frá 2005 til 2007 en hann er reyndur þjálfari sem hefur meðal annars þjálfað kvennalið Breiðabliks, HK/Víkings og KR.

Jóhannes Karl var sáttur við sigurinn.

Stjörnukonan Eyrún Embla Hjartardóttir í baráttunni við Keflvíkinginn Saorla Miller.
Stjörnukonan Eyrún Embla Hjartardóttir í baráttunni við Keflvíkinginn Saorla Miller. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er frábært og mikill léttir. Það lá aðeins á okkur undir lokinn. Gott þegar maður kemur nýr inn í svona starf að sjá karakterinn sem leikmennirnir sýndu. 

Þær sýndu það að þær geta náð í þrjú stig í öllum leikjum og seldu sig verulega dýrt. 

Það tóku allir leikmenn ábyrgð, unnu vinnuna sína og voru til í að henda sér fyrir þá bolta sem þurfti að henda sér fyrir.

Þær hlupu í 90 mínútur og það er stundum það sem þarf til að vinna fótboltaleiki. Virkilega ánægjulegt að sjá,“ sagði Jóhannes Karl við mbl.is eftir leik. 

Árið 2003 var malarvöllur

Eins og áður kom fram er Jóhannes að taka við liði Stjörnunnar í annað sinn og eftir 17 ára fjarveru. Hann segir þetta vera allt annað í dag en þá.

„Þetta er allt annað. Þegar ég byrjaði árið 2003 var þetta malarvöllur. 

Umgjörðin hér er frábær, það hefur margt breyst. Það er virkilega ánægjulegt að ganga inn í kvennalið þar sem það er svona vel hugsað um leikmennina. 

Það sem leikmenn hafa aðgang að er virkilega gott. Eins og í öllu vilja menn meira og það er alltaf verið að ýta á til að gera hlutina enn betri. 

En ég held að staðan hér í dag miðað við það sem ég þekki er frábær.“

Einn leikur í einu

Stjarnan er í sjötta sæti deildarinnar með 12 stig eftir ellefu leiki. Tímabil hefur verið vonbrigði hjá Stjörnunni en Jóhannes Karl segir að liðið taki eitt skref í einu.

„Eftir að ég kem inn er þetta bara einn leikur í einu. Stuttur tími, við erum með litla áherslupunkta sem við vinnum með. Þannig tökum við skrefin. 

Þetta verða að vera lítil skref fram á við, og ef okkur tekst það áfram þá er hægt að byggja ofan á það. 

Ég verð að viðurkenna, það var stuttur tími fyrir þennan leik þannig ég hef lítið skoðað Stólanna. 

En þegar að Tindastóll kom hingað þá fannst mér liðið spila virkilega góðan fótbolta. Ég býst við mjög skemmtilegum fótboltaleik,“ bætti Jóhannes Karl við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert