Áttum ekki meira bensín

Hart barist í leik kvöldsins.
Hart barist í leik kvöldsins. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Þór/KA spilaði fjórða leikinn sinn á þrettán dögum í dag þegar FH kom í heimsókn á Þórsvöllinn. Lið Þórs/KA var ekki á sínum degi og FH vann sanngjarnt 1:0.

Þjálfarinn, Jóhann Kristinn Gunnarsson, var spurður eftir leikinn hvort þreyta væri í mannskapnum hans.

„Við áttum ekki meira bensín í dag en þetta. Þetta er allt of þétt og ekki hjálpaði að síðasti leikur fór í framlengingu.“

Þú hefur verið að reyna að dreifa álaginu og látið leikmenn spila hálfleik og hálfleik.

Jóhann Kristinn Gunnarsson, næstlengst til hægri, ásamt þjálfarateyminu.
Jóhann Kristinn Gunnarsson, næstlengst til hægri, ásamt þjálfarateyminu. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Það er meira í þessu núna. Síðan við spiluðum á föstudaginn þá voru margir leikmenn að spila U-20 leik í Reykjavík á sunnudaginn. Það má því segja að það sé enginn ferskur. Það er samt engin afsökun. Mér fannst við reyna en það vantaði aðeins upp á í dag.

Þessi þreyta kom alveg í ljós í ákvarðanatökum, fínhreyfingum og snertingu á bolta. Þar sá maður hvernig liðið var statt hvað varðaði orkubirgðir. Ég tek ekkert af FH. Þær gerðu þetta vel.“

Það er stundum sagt um lið að þótt það myndu spila til miðnættis þá næði það ekki að skora. Var sú ára ekki yfir ykkur í dag?

„Það var svolítið þannig. Mér fannst við ekki eiga þetta extra túrbó inni til að gera eitthvað inni á síðasta þriðjungnum. Þær voru bara ferskari og það var ekkert skrýtið“ sagði Jóhann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert