Bara 16 ára stelpa úr Hafnarfirði

Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir skoraði sigurmark Vals í kvöld.
Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir skoraði sigurmark Vals í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér fannst þetta vera jafnteflisleikur,“ sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals eftir 1:0-sigur liðsins gegn Þrótti í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Hlíðarenda í kvöld.

„Við herjuðum aðeins á þær síðasta korterið og náðum inn þessu marki hjá Ragnheiði [Þórunn Jónsdóttir] sem er bara 16 ára stelpa úr Hafnarfirði,“ sagði Pétur Pétursson í viðtali við mbl.is eftir leik.

Leikurinn var hnífjafn og Þróttur síst slakari aðilinn. Sigurmarkið kom á lokamínútu venjulegs leiktíma.

„Ég endurtek aftur að Óli (Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar) er að gera frábæra hluti hjá Þrótti og þetta er eitt besta Þróttara lið sem ég hef spilað á móti,“ sagði Pétur.

Liðin mættust á laugardaginn síðastliðinn í bikarnum og hafði Valur þá betur, 3:0. Pétur gerði fimm breytingar á sínu liði frá þeim leik.  

„Við spiluðum allt annað kerfi. Við stilltum upp fimm nýjum leikmönnum inn á og spiluðum annað kerfi en við erum vanar að gera. Svo við breyttum töluvert miklu og mér fannst það ganga ágætlega upp,“ sagði Pétur

Berglind Björg Þorvaldsdóttir byrjaði sinn fyrsta leik með Val í kvöld sem er einnig hennar fyrsti byrjunarliðsleikur eftir barneign. Pétur var sáttur með frammistöðu hennar í dag.

„Þetta var bara fínt. Gott að fá 70 mínútur í kroppinn og það er það sem hún þarf og hún stóð sig vel,“ sagði Pétur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert